149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

stuðningur við landbúnað.

[14:05]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og fagna viðhorfi hennar til landbúnaðarins. En þetta er einmitt það sem ég var að segja: Við segjum þetta alltaf en það er eins og það komi ekki fram í framkvæmdinni, nema mjög óljóst og mjög misvísandi skilaboð sem bændur fá. Sem dæmi má nefna að þeir þurfa stundum að bregðast við. Núna er aukinn innflutningur á kjötvörum. Það er verið að kynbæta nautgripina til að svara aukinni samkeppni en það mun taka 20 ár. Það er vegna þess að við förum mjög varfærna leið sem Matvælastofnun ákveður. Það er ekki hægt og alls ekki rétt að reyna að fjarstýra stofnunum eða vera með puttana í því hvernig þær taka ákvarðanir. En það þarf að hafa heildarsýn, vita hvert við ætlum og vinna samkvæmt því. Mér finnst þetta stundum vera eins og hjá Lísu í Undralandi sem stóð á krossgötum og spurði hvert hún (Forseti hringir.) ætti að fara en þar sem hún vissi ekki sjálf hvert hún ætlaði og var alveg sama hvert hún fór. Hættan er sú að við endum bara einhvers staðar. Það er ekki góður endir.