149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

listaverk í eigu Seðlabankans.

[14:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er mikilvægt að við búum vel að menningararfi okkar. Það er mikilvægt að við uppfyllum þær skyldur sem við leggjum á í lögum, að opinberar stofnanir eigi að vera til fyrirmyndar þegar kemur að því að hefja listina til vegs og virðingar. Af því að hv. þingmaður nefnir þetta fallega verk af þjóðfundinum á hæðinni fyrir neðan nýti ég það iðulega, fyrir utan að verkið er fallegt, til að uppfræða ungu kynslóðina þegar ég fæ tækifæri til þess. Ég er því miður allt of sjaldan beðin um það af starfsmönnum Alþingis að taka á móti skólahópum, og þau taka tillit til þess sem ég er að segja núna, en þá nýti ég verkið til að ræða sögu kynjajafnréttis á Íslandi, því að ef ég man rétt eru eingöngu karlmenn á myndinni. Verkið er því ekki aðeins fagurt heldur líka ákveðinn vitnisburður um sögulega þróun.

En stóra málið í þessu er að miklu máli skiptir að varðveita listrænt frelsi. Það skiptir líka miklu máli að við sýnum hvert öðru alúð og högum okkur eftir því en virðum um leið að list er alls konar og birtir alls konar sjónarmið og þannig á það að vera. (Forseti hringir.) Því megum við ekki glata.