149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

dagskrá fundarins.

[14:20]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U):

Herra forseti. Þótt ekki væri nema fyrir það að okkur, þessum tveimur óháðu þingmönnum utan flokka, sé haldið algjörlega í myrkrinu varðandi allar afgreiðslur í forsætisnefnd og þurfum að lesa það í fjölmiðlum hvað sé á döfinni, eins og til að mynda það að kjósa ætti varaminniháttarundirforsætisnefnd til að fara með þetta mál — þetta lásum við í blöðunum — er einnig furðulegt að horfa upp á hæstv. forseta koma fram í fjölmiðlum, eftir að hann er búinn að lýsa sig vanhæfan í þessu máli, og lýsa því yfir að nauðsynlega þurfi að kjósa nýja forsætisnefnd sem hefði það eina hlutverk að vísa kærumálinu til siðanefndar. Hann er sem sagt að mæla fyrir um hvað ókosinni forsætisnefnd beri að gera. Vanhæfur forseti er að gefa (Forseti hringir.) fyrirmæli um það hvað ókosin nefnd eigi að gera. Við, þessir óháðu þingmenn, höfum ekki fengið eitt einasta bréf síðan 18. desember um gjörðirnar. Allt þetta hefur gerst síðar.