149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

afbrigði.

[14:24]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Eins og þingheimi er kunnugt barst forsætisnefnd fyrir jól bréf átta þingmanna sem óskuðu eftir að nefndin fjallaði um mögulegt brot sex tilgreindra þingmanna á siðareglum fyrir alþingismenn. Forsætisnefnd fjallaði um erindið á tveimur fundum, 15. og 17. desember, og varð það niðurstaða forseta og síðan allra varaforsetanna hvers um sig að með hliðsjón af 2. mgr. 17. gr. siðareglnanna yrðu þeir að segja sig frá málinu vegna ummæla á opinberum vettvangi.

Nefndin fól svo á fundinum 17. desember skrifstofu þingsins að halda málinu í horfinu þar til búið væri að bæta úr ágalla á hæfi forsetanna. Enn fremur hefur forsætisnefnd móttekið annað erindi um mögulegt brot á siðareglum vegna hátternis er tengist málinu. Á fundi forsætisnefndar 14. janúar sl. sögðu forseti og allir varaforsetar sig jafnframt frá því máli.

Á fundi forsætisnefndar 14. janúar sl. kynnti forseti þá fyrirætlan sína að leggja til við þingið að kosnir yrðu sérstaklega tveir eða þrír varaforsetar í viðbót við þá sem fyrir eru til að annast meðferð málsins og ljúka því. Varaforsetar lýstu stuðningi við tillögu forseta, allir nema einn. Á fundi með formönnum þingflokka daginn eftir, 15. janúar, fór forseti yfir málið og kynnti tillögu sína. Voru þar ekki gerðar athugasemdir við málsmeðferðina.

Eftir að forseti og varaforsetar sögðu sig frá málum hefur komið í ljós að meginþorri þingmanna hefur tjáð sig með þeim hætti í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum að draga megi með réttu í efa hlutlægni þeirra til að fjalla um málið. Forseti hefur því kannað hvort unnt sé að fá þingmenn sem líkur eru á að séu hæfir í málinu til að taka við því. Þar koma fáir til greina og á grundvelli athugunar sinnar leggur forseti nú til að á þessum fundi verði kosnir tveir nýir varaforsetar, sem verði 7. og 8. varaforseti Alþingis, til að fara með þau tvö tengdu siðareglumál sem borist hafa forsætisnefnd.

Forseti leggur því til að veitt verði afbrigði frá þingsköpum, eins og heimilt er samkvæmt 94. gr. þingskapa, til að víkja frá 3. mgr. 3. gr. um fjölda varaforseta, svo og frá 1. mgr. 6. gr. um kjörtíma svo Alþingi geti kosið tímabundið tvo nýja varaforseta til að fara með þessi siðareglumál.

Ég vil svo láta þess getið að það er einróma afstaða, bæði í forsætisnefnd og á vettvangi með formönnum þingflokka, að taka beri stöðu forsætisnefndar að þessu leyti gagnvart siðareglunum til endurskoðunar.