149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

afbrigði.

[14:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Eins og heyra mátti á orðum hæstv. forseta er hann nú að leggja fram, eftir að hafa lýst sig vanhæfan, tvö nöfn þingmanna sem fundin eru eftir ítarlega rannsókn sem ekki liggur fyrir hvernig eða á hvaða forsendum var gerð. Það liggur fyrir að í þessum sal eigi að vera fimm eða sex þingmenn sem ekki eru vanhæfir til að taka þátt í afgreiðslu málsins sem um ræðir. Ég geri þá ráð fyrir því að ef atkvæðagreiðslan sem boðuð er fer fram muni aðeins þeir fimm eða sex greiða atkvæði í atkvæðagreiðslunni sem lögð er til af vanhæfum forseta um menn til að taka að sér ákveðin verk. Ég geri ekki ráð fyrir því að allir aðrir í salnum, sem er að sögn forseta sannarlega búið að rannsaka til hlítar að geti eða geti ekki tekið afstöðu í málinu, geri slíkt hið sama. Það hlýtur að verða athyglisvert fyrir okkur ef atkvæðagreiðslan kemst á að fylgjast með því hverjir greiða atkvæði, hvort það eru allir þeir sem eru vanhæfir eða hvernig það er. (Forseti hringir.) Ég held að það væri ráð, hæstv. forseti, að gera stutt fundarhlé og fara aðeins yfir þetta mál með formönnum flokka og formönnum þingflokka áður en lengra er haldið í því ólánsmáli.