149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

afbrigði.

[14:34]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að gera mig vanhæfan í þessu máli. Ég er víst einn af þeim sex þingmönnum sem voru taldir hæfir en ég er hér með orðinn vanhæfur vegna þess að ég er búinn að taka til máls um þetta meinta mál sem mér og mörgum öðrum finnst vera búið. Þetta mál er búið. Þegar forsætisnefnd lýsti sig vanhæfa í þessu máli að meðtöldum forseta Alþingis var málið búið í mínum huga. Að ætla að fara að feta einhverjar slóðir til að koma þessu á koppinn aftur með kosningu tveggja varaforsætisnefndarmanna er ekkert annað en valdníðsla í mínum huga. Ég lýsi vanþóknun minni á því að þurfa að standa í þessu máli. Ég fór inn á þing til að gera landi og þjóð eitthvert gagn en ekki til að standa í svona argaþrasi um akkúrat ekki neitt nema ónýtt mál.