149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[14:52]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkrum misserum kom fram í fréttum að alvarleg staða væri á bráðamóttöku Landspítala en ekki hafa fengist fullnægjandi svör um hvort nú sé hægt að uppfylla ýmis lagaákvæði um réttindi sjúklinga. Því er rétt að eiga samtal við hæstv. heilbrigðisráðherra um stöðuna eins og hún er núna.

Annað atriði hefur ítrekað komið fram, undirmönnun og þá sérstaklega undirmönnun hjúkrunarfræðinga sem og annarra starfsstétta á Landspítala, en skortur á hjúkrunarfræðingum og þá líka sjúkraliðum leiðir af sér að ekki er hægt að hafa allar deildir opnar, með öðrum orðum að nýta öllu rúm sem annars væri hægt að nýta.

Í hlutaúttekt landlæknisembættisins vegna alvarlegrar stöðu á bráðamóttöku Landspítalans kemur fram að bæta þurfi starfsumhverfi starfsfólks. Jafnframt segir starfsfólkið að starfsandinn sé góður. Þetta þykir mér nokkuð merkileg hugsun hjá starfsfólkinu sem segir mér það eitt að það ætli að reyna að halda þetta út. Það ætlar að halda áfram að vinna við þessar aðstæður. Það er nefnilega ekki annað hægt en að velta því upp hvort starfsaðstæður á Landspítala geri það að verkum að ekki fáist þar fólk til starfa.

Mér finnst þetta, eins og ég sagði áðan, nokkuð mikilvægt atriði. Við þekkjum það öll að gera okkar besta en það getur reynst erfitt ef við sjáum ekki fram á að aðstæður batni. Það getur verið erfitt að halda út en það er ljóst að það þarf að bæta kjör þeirra stétta sem starfa á Landspítala, og í heilbrigðiskerfinu öllu ef út í það er farið. Aðeins þá getum við fengið til starfa lyfjafræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, félagsráðgjafa o.s.frv. þar sem Landspítalinn vill gjarnan vinna þvert á stéttir og í góðri samvinnu.

Í úttektinni kemur einnig fram að brýnt sé að auka ábyrgð sveitarfélaga og umdæmissjúkrahúsa sem og að koma á sérhæfðri heimaþjónustu. Því verður áhugavert að fá þessa umræðu á eftir og vonandi koma þessir þættir allir fram. Það er nefnilega að mörgu að hyggja og t.d. hefur fjölgun ferðamanna haft gríðarleg áhrif á starfsemi Landspítala. Það má segja að stjórnendur og starfsfólk, sérstaklega á bráðamóttöku, hafi lengi bent á að öryggi sjúklinga geti verið hætta búin ef ekki er brugðist við.

Samtímis má líka benda á að vandinn er ekki aðeins vandi Landspítala. Hann er stærri en svo en hann verður aðeins leystur í samvinnu við alla aðila, þar með Landspítala og af öllum aðilum sem koma þar að.

Þær spurningar sem ég hef lagt til grundvallar og vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra eru að í úttekt embættis landlæknis á alvarlegri stöðu bráðamóttökunnar kemur í ljós að ekki er hægt að uppfylla ýmis lagaákvæði um réttindi sjúklinga. Hvað hyggst ráðherra gera til að bæta réttindi sjúklinga? Þetta þarf að vera í lagi. Hvað sér ráðherra fyrir sér að gera varðandi undirmönnun og þar af leiðandi skort á hjúkrunarrýmum á Landspítala? Hefur ráðherra velt því fyrir sér hvaða áhrif þessi bráðavandi — sem mér skilst að sé ekki beint að batna, fari hægt niður á við eins og einhver sagði — hefur til lengri tíma á sjúklinga og ekki síður á starfsfólk? Því má ekki gleyma. Hvaða lausnir sér ráðherra?