149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[14:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessari stöðu og jafnframt að þakka hv. velferðarnefnd sem hefur líka tekið málið til umfjöllunar. Mér finnst það vera nákvæmlega þannig sem nefndir þingsins eiga að virka, þ.e. að taka mál sem eru uppi í samfélaginu til umfjöllunar. Nefndin brást mjög fljótt við því þannig að ég er búin að hitta hv. velferðarnefnd og ræða málin, en fannst sjálfsagt að gera það líka hér í þingsal að beiðni hv. þingmanns.

Vegna umræðunnar um alvarlega stöðu bráðamóttökunnar er rétt að vísa sérstaklega til tveggja mikilvægra ábendinga sem komu frá embætti landlæknis í hlutaúttektinni og er beint sérstaklega til heilbrigðisráðuneytisins. Þessar ábendingar komu strax í minnisblaði í desember og svo aftur í hlutaúttektinni og lutu að tvennu, annars vegar því að fjölga hjúkrunarrýmum og hins vegar að tryggja mönnun fagfólks, eins og það er orðað.

Ég vil nota þetta tækifæri til að geta þess, af því að hv. þingmaður nefnir í fyrirspurn sinni hjúkrunarrými á Landspítala, að það er kannski ekki nákvæmt að orða það þannig, því að þau rými sem eru ætluð þeim sem ættu þegar að hafa útskrifast en eru til að leysa eða koma til móts við útskriftarvandann að hluta, eru miklu frekar biðrými en raunveruleg hjúkrunarrými og eru skilgreind sem slík.

Eins og reyndar kemur líka fram í hlutaúttektinni hefur þegar verið mikið unnið að því í heilbrigðisráðuneytinu að fjölga hjúkrunarrýmum og finna leiðir til að tryggja hjúkrunarfræðinga. Á síðasta ári kynnti ég stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma sem nú er unnið samkvæmt og þær úrbætur sem koma til framkvæmda á næstu mánuðum ættu að gjörbreyta stöðunni á Landspítala. Þar er fyrst að nefna að verið er að taka í notkun nýtt hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi með 40 nýjum hjúkrunarrýmum og ef allt gengur samkvæmt áætlun ætti það að vera komið í fulla notkun í mars/apríl. Um svipað leyti er svo ráðgert að nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili í Hafnarfirði verði tekið í notkun. Þar er reyndar bara um eitt viðbótarhjúkrunarrými að ræða, en á haustmánuðum er svo ráðgert að opna 99 rýma hjúkrunarheimili á Sléttuvegi í Reykjavík. Hér munu því bætast við um 140 ný hjúkrunarrými á þessu ári.

Þegar úttekt embættis landlæknis var gerð biðu um 120 einstaklingar á Landspítala eftir hjúkrunarrými, þar af biðu 53 inni á deildum sem ætlaðar eru fyrir aðra starfsemi, þ.e. inni á bráðarýmum. Það er því ljóst að þessi 140 hjúkrunarrými munu bæði mæta þörfum þeirra einstaklinga sem þar bíða og annarra sem enn eru heima en eru í þörf fyrir dvöl í hjúkrunarrými. Það er mikilvægt líka að mæta þörfum þeirra sem bíða heima, því að þegar allt um þrýtur myndu þeir væntanlega að öðrum kosti enda á Landspítalanum sem er ekki góður kostur fyrir þá sem þurfa hjúkrunarrými, fyrir utan að vera afskaplega dýr valkostur, ef svo má að orði komast.

Til viðbótar þessu er unnið að framgangi frekari hugmynda til að fjölga hjúkrunarrýmum til að þessi fjölgun verði jafnvel enn hraðari. Þar erum við til að mynda að skoða tímabundna notkun gamla Sólvangs, auk þess sem unnið er að áframhaldandi uppbyggingu hjúkrunarrýma samkvæmt framkvæmdaáætluninni sem áður var getið og kynnt var á síðasta ári.

Aðrir þjónustuþættir sem bæta svokallað flæði fólks og sjúklinga um Landspítalann og til Landspítalans skipta líka miklu máli til að öll þjónustukeðjan verði sem liprust og sinni sem best sínu hlutverki. Sjúkrahótel mun opna í apríl og þó að þar séu ekki sjúkrarými mun það bæta mjög möguleikana til að veita enn betri þjónustu þeim sem þurfa á þjónustu Landspítala að halda, t.d. þeim sem koma utan af landi, þeim sem eru sjálfbjarga en þurfa þjónustu spítalans.

Efling heimahjúkrunar er mjög mikilvæg og aukið fé, 130 milljónir, hefur verið veitt til að bæta þar úr. Það er mikilvægt að halda því áfram en skýrsla KPMG frá 2018 sýnir að Ísland ver minna fjármagni í heimahjúkrun en nágrannalöndin. Áhrifin af þessum aðgerðum munu leiða til þess að réttindi sjúklinga verði betur tryggð á bráðamóttöku Landspítala og spítalans í heild.

Það er ljóst að mönnun fagfólks er forsenda þess að hægt sé að veita góða og örugga heilbrigðisþjónustu og embættið hefur sérstaklega bent á þau mál. Í skýrslu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga frá árinu 2017 kom fram að 24% hjúkrunarfræðinga á vinnualdri starfa við annað en hjúkrun. Það er óhætt að taka undir að þessi vandi er mikill og lagast ekki án aðgerða. Ég hef því þegar lagt fram tillögur um aðgerðir fyrir ráðherranefnd um samræmingu mála. Það eru aðgerðir sem kalla á samvinnu milli ráðuneyta og sú vinna er í gangi og eru væntingar bundnar við árangur hennar.

Virðulegi forseti. Ég verð að gera hlé á því að svara spurningum hv. þingmanns en kem væntanlega að þeim í lok umræðunnar.