149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:04]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Það er ágætt og við hæfi að við hefjum nýtt ár á því að ræða um þessa mikilvægu stofnun, Landspítalann. Það er nú hins vegar þannig, eins og kom skýrt fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra, að verið er að undirbúa margt og ýmislegt er í farvatninu sem leysa mun að hluta til þann vanda sem við er að glíma á Landspítalanum.

Ég hef hins vegar ítrekað það hér í hverri ræðunni á fætur annarri þegar kemur að Landspítalanum að mér finnst oft eins og þingmenn festist í þeirri gildru að telja að lausnin felist alltaf í því að setja bara meiri peninga í vandann. Við ættum fremur að fara núna að hugleiða og ræða það í fullkominni alvöru hvort Landspítalinn glími t.d. við stjórnskipulegan vanda, hvort við þurfum að fara ofan í stjórn Landspítalans, hvernig hann er skipulagður og hvort þeir fjármunir sem við setjum í spítalann — við ætlumst til að spítalinn veiti okkur þjónustu sem við viljum að sé fyrir hendi fyrir þá sem þurfa á að halda — nýtist með þeim hætti sem við gerum kröfu til.

Ég hef efasemdir um að svo sé. Ég hygg að við verðum að hafa burði til þess að ræða af fullkominni hreinskilni að þar kann að vera pottur brotinn þegar kemur að stjórnskipulagi Landspítalans. Ég ítreka það sem ég hef líka haldið fram, að það er fráleitt að stærsta fyrirtæki — því að auðvitað er Landspítalinn ekkert annað en fyrirtæki, með 5.300 starfsmenn — (Forseti hringir.) skuli ekki hafa sjálfstæða, faglega stjórn sem er ábyrg gagnvart ráðherra og þingi. Við ættum að taka það upp hér áður en þingi lýkur í vor, frú forseti.