149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:09]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og hæstv. ráðherra fyrir hennar innlegg. Velferðarnefnd hefur fjallað um þetta mál og fylgst með þessum vanda og kallað til sérfróða aðila til að halda nefndinni upplýstri um málið.

Það hafa verið nefndar ýmsar ástæður fyrir þeim bráðavanda sem uppi er núna en hann snýr að því að erfiðlega gengur að leggja sjúklinga inn á legudeildir þar sem þær eru fullar. Bráðamóttökunni tekst vel að sinna sínu hlutverki, það hefur komið fram, og dvalartími þar er innan viðmiðunarmarka en svo hefst vandamálið þegar kemur að því að leggja fólk inn á legudeildir. Þær eru fullar og gengur illa að koma sjúklingum í viðunandi úrræði, þar með talið sjúklingum með öldrunarsjúkdóma.

Ljóst er að bregðast verður við þeim vanda sem snýr að biðlistum eftir hjúkrunarrými. Hæstv. ráðherra nefndi hér ýmis úrræði sem eru á teikniborðinu og því ber að fagna en það er ljóst að nokkuð vantar upp á að hægt sé að mæta eftirspurn.

Fram undan eru lausnir eins og hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi og fleiri rými eru í farvatninu. Það hefur borist ákall frá sveitarfélögum eins og Hafnarfirði og Akranesi um að ríkið tryggi fjármagn til að reka hjúkrunarrými sem þegar eru til staðar en eru núna nýtt undir aðra þjónustu fyrir aldraða. Þetta eru rými sem eru tilbúin og þau eru til staðar og starfsfólkið er til staðar líka, en það vantar aðkomu ríkisins. Þetta er lausn sem myndi liðka fyrir því að leysa þennan skammtímavanda.

Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir því að lögð yrði fram heilbrigðisstefna sem nú hillir undir, heilbrigðisstefna sem yrði forsenda fyrir betri fjármálaáætlun sem héldi. Með góðri heilbrigðisstefnu er hægt að kortleggja framtíðarverkefni heilbrigðiskerfisins og verður þá komið í veg fyrir þann vanda sem nú er uppi á Landspítalanum.