149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:11]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Í hlutaúttekt embættis landlæknis vegna þess vanda sem bráðamóttakan er í kennir ýmissa grasa. Það er rétt að taka fram að þar kemur fram að spítalanum tekst vel að sinna bráðahlutverki sínu en ástæður í skýrslunni eru eftirtaldar tilteknar: Annars vegar að einstaklingar sem lokið hafa meðferð á spítalanum geti ekki útskrifast og hins vegar skortur á starfsfólki innan spítalans.

Í gær ræddum við hér í þingsal stjórnmálaástandið vítt og breitt. Samflokksmaður heilbrigðisráðherra, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sagði við það tækifæri, með leyfi forseta:

„Ég hef setið nokkuð lengi í fjárlaganefnd … Ég man satt að segja ekki eftir því að jafn fáar stofnanir hafi kvartað yfir því að fjárframlög til stofnana séu ekki sæmileg og að meira að segja þurfti að kalla Landspítalann sérstaklega inn vegna þess að hann óskaði ekki eftir því að fá að koma og sendi ekki inn umsögn.“

Í þessum orðum stjórnarþingmannsins liggur að það er ekki fjárhagsvanda Landspítalans um að kenna að þessi staða er uppi nú. Peningana virðist skorta annars staðar. Ég tek heils hugar undir það sem hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi áðan, að rétt væri að skoða hvort nýting fjármuna gæti verið betri en raun ber vitni.

Mig langar til að gera sérstaklega að umtalsefni skort á hjúkrunarrýmum og bera saman við þá staðreynd að við samþykkt fjárlaga fyrir nokkrum vikum var skorið þar hraustlega niður við mikil mótmæli þeirra sem starfa við þessi mál og töldu sig hafa vilyrði um annað. Síðan er mönnunarvandinn sem hefur aukist á síðustu árum, ekki síst meðal hjúkrunarfræðinga. Við í Viðreisn lögðum fram tillögu ásamt góðum hópi samþingsmanna sl. vor sem fól í sér að ráðherra fjármála yrði falið að leiða viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þjóðarsátt, til að bæta kjör kvennastétta. (Forseti hringir.) Þetta var útþynnt í meðförum meiri hlutans á þann veg að hvorki varð fugl né fiskur, svo það sé nú bara hreint út sagt. (Forseti hringir.) En núna þegar við stöndum frammi fyrir því að þessi mönnunarvandi á Landspítalanum er orðinn dauðans (Forseti hringir.) alvara er kannski rétt að hæstv. ráðherra og samráðherrar hennar (Forseti hringir.) í ríkisstjórn Íslands brjóti odd af oflæti sínu og (Forseti hringir.) skoði góð mál þegar þau koma fram af hálfu minni hlutans og viðurkenni að þetta er grunnur vandans. Og það er til lausn á honum.

(Forseti (ÞórE): Forseti vill minna þingmenn á að virða ræðutíma.)