149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, fyrir að vekja athygli á þessu brýna máli. Einnig þakka ég hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að vera hér með okkur í dag og ræða þessi mál.

Það er náttúrlega stuttur tími til þess að fjalla um þann mikla vanda sem blasir við okkur og hefur gert lengi. Þetta er uppsafnaður vandi, að sjálfsögðu, og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki haft langan tíma til að berjast. Þó verður maður að þakka það sem gott er, t.d. þau hjúkrunarrými sem við erum að fara að taka í notkun.

En mig langar til að spyrja sérstaklega út í þau 40 hjúkrunarrými sem mér skildist að taka hefði átt í notkun á Seltjarnarnesi núna um síðustu áramót. Enn standa út af um 270 hjúkrunarrými, þrátt fyrir þau 200 hjúkrunarrými sem við munum fá núna. Við horfum enn upp á vandann á Landspítalanum en fyrir rúmu ári síðan, í kosningabaráttunni, voru um 100 eldri borgarar fastir þar inni og komust ekki út vegna þess að heimahjúkrun var ekki í boði fyrir þessa einstaklinga. Nú eru þeir orðnir 130 talsins.

Mig langar af þessu tilefni til að minna á grein sem ég las í Morgunblaðinu í morgun sem var dálítið sláandi og ég hrökk við. Þar segir eldri maður sögu sína. Hann hefur búið í Hafnarfirði með konu sinni sem er komin með heilabilun. Nú er búið að flytja hana í hvíldarinnlögn í 470 km fjarlægð frá honum, til Húsavíkur. Hvað sér hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir sér í því að bæta t.d. heimahjúkrun, sem er svo aðkallandi, og að við tökum betur utan um fólkið okkar sem er með heilabilun og varðandi það að gera hjónum betur kleift að vera saman? Ég kem að öðru í seinni ræðu.