149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U):

Frú forseti. Ég vil hefja mál mitt á að þakka hv. málshefjanda, hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, og ráðherra fyrir þessa mjög svo mikilvægu umræðu. Það eru náttúrlega aðallega aldraðir sem bera hallann af þessu ástandi, a.m.k. ekki síst, og þetta er ekki boðleg meðferð á því fólki sem hefur lagt grunninn að því velferðarþjóðfélagi sem við búum í. Hröð fjölgun aldraðra hefur legið fyrir um árabil. Síðustu ríkisstjórnir hafa með algjöru andvaraleysi skotið sér undan því að bregðast við þeirri fjölgun sem nú er orðin staðreynd og er fyrirsjáanleg næstu ár og áratugi.

Ég vil nota þetta tækifæri, frú forseti, og vekja athygli á frumvarpi sem ég hef lagt fram um breytingar á lögum um málefni aldraðra til að tryggja að fé Framkvæmdasjóðs aldraðra verði varið til byggingar húsnæðis fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á því húsnæði eins og kveðið er á um í lögunum. Sjóðnum hefur ekki verið bætt upp það fé sem runnið hefur til rekstrar en ekki nýbyggingar og viðhalds á undanförnum árum. Það fé sem hér um ræðir skiptir mörgum milljörðum. Verði frumvarpið að lögum myndi fé sjóðsins á hverju ári til að byggja heimili fyrir aldraða aukast um 67% frá því sem nú er, þ.e. úr 1,4 milljörðum kr. í um 2,3 milljarða. Þetta jafngildir árlega um 30 hjúkrunarrýmum. Þjóðin eldist hratt og hér þurfa að koma til raunhæf úrræði.