149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Það er rétt sem fram hefur komið í ræðum nokkurra þingmanna að þessi vandi er í sjálfu sér búinn að vera nokkuð ljós lengi. Það breytir ekki því að ríkisstjórnin sem nú situr skellti skollaeyrum við þeim tillögum sem Miðflokkurinn lagði fram í fjárlagaumræðunni sem hefðu getað orðið til að laga þetta vandamál að hluta, með því að setja meiri peninga í heimaþjónustu fyrir þá sem fá ekki inni á hjúkrunarheimilum og er þess vegna ekki hægt að útskrifa af því að þeir hafa ekki heimilisaðstoð. 250 milljónir lagði flokkurinn til en það var fellt. Nokkrum dögum síðar fór heilbrigðisráðherra ofan í einhvern jólasekk hjá sér og náði í 100 milljónir, ef ég man rétt, til að setja í þetta málefni. En það hefði kannski verið sæmra að fara bara að tillögunni sem Miðflokkurinn lagði fram á sínum tíma.

Ég vil líka leggja áherslu á það að ég er sammála hv. þm. Óla Birni Kárasyni um að það þarf að gera úttekt á því hvernig fjármunir sem fara til Landspítalans nýtast. McKinsey-skýrslan sem hér var lögð fram fyrir nokkrum árum og var sett beint ofan í skúffu og hefur enga umræðu hlotið gaf til kynna að það fjármagn sem væri sett til spítalans nýttist ekki, þ.e. að afkastageta hans ykist ekki og ekki framleiðnin.

Það hlýtur líka að liggja einhver orsök á bak við það, önnur en laun, hvers vegna hjúkrunarfræðingar fást ekki til starfa, eins og sagt er að sé, að þeir fáist ekki til starfa á Landspítalanum, vegna þess að ekki virðist vera skortur á hjúkrunarfræðingum víða annars staðar. Landspítalinn borgar sæmileg laun, ekkert verri en aðrir, þannig að það hlýtur að liggja einhver vandi þarna sem þarf að komast til botns í til að hægt sé að vinna bug á þessu vandamáli.