149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:23]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Forseti. Landspítalinn gegnir í senn því hlutverki að vera háskólasjúkrahús, öflugasta sjúkrahús landsins og líka að vera umdæmissjúkrahús fyrir Reykjavík og nágrenni, eins konar héraðssjúkrahús. Það er hlutskipti sem ekki kann góðri lukku að stýra. Vegna bráðahlutverk spítalans þarf iðulega að fresta áformuðum aðgerðum. Nefnt er í skýrslu landlæknis að í fyrra hafi t.d. þurft að fresta 50 liðskiptaaðgerðum og samtals 109 bæklunaraðgerðum á 12 mánaða tímabili. Það bitnar ekki á öðrum en sjúklingum. Það er því áleitin spurning hvort ekki þurfi, samhliða útskriftarvanda að skilgreina betur hlutverk spítalans, hverjir eigi þar að innritast, hvort skynsamlegt sé að spítali á hæsta og dýrasta viðbúnaðarstigi eigi að taka við og skuli taka við öllum þeim sjúklingum sem til hans leita til meðferðar, og hvort önnur stig heilbrigðisþjónustunnar eigi ekki að koma til liðs í auknum mæli. Ég tek undir með hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni að þessu leyti.

Í skýrslunni er einmitt tæpt á því að með því að veita heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi megi hugsanlega spara stórfé, allt að 20% fjármuna. Ef það er raunin á sér stað umtalsverð sóun í heilbrigðiskerfi okkar.

Margt jákvætt kemur fram í skýrslunni, hún er ekki svört en rauði þráðurinn er sá að það blasir við að smyrja þarf ýmsa liði í kerfinu svo þeir virki miklu betur. Bent er á að efla þurfi til muna göngudeildarþjónustu svo að forðast megi innlagnir. Þá er nefnt að samstarf við heilsugæsluna hafi aukist og að það hafi skilað sér í marktækum árangri og dregið úr álagi á bráðamóttöku.

Ég spyr því ráðherra hvort ekki eigi enn að efla og styrkja heilsugæsluna og náttúrlega heimaþjónustuna í raun, til að takast á við aukin verkefni hvað þetta varðar. Síðan er það hlutverk spítalanna á suðvesturhorninu. Það er spurning hvort sjúkrahúsin þurfi ekki að fá sitt skilgreinda hlutverk, að þau séu sérhæfð (Forseti hringir.) og samkeyrðu jafnvel að einhverju leyti stjórnunarlega með Landspítala.

Frú forseti. Opnun nýrra hjúkrunarheimila er skammgóður vermir ef við breytum ekki samskiptum í kerfinu og hættum að einblína á stofnanavæðingu sem stóru lausnina. Innan fárra missera er hætta (Forseti hringir.) á því að við verðum í nákvæmlega sömu sporum ef ekkert verður að gert, eða er ekki (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra sammála mér í því?

(Forseti (ÞórE): Enn minnir forseta hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)