149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:28]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar fyrir fram að ég mun tala svolítið hratt vegna þess að mér liggur svo mikið á hjarta, það er margt sem mig langar að segja. Ástandinu á Landspítalanum er lýst sem bráðavanda. Helsta ástæðan fyrir þeim vanda er skortur á hjúkrunarfræðingum. Það er mönnunarvandi. Ekki fást hjúkrunarfræðingar til að manna lausar stöður. Ástæðan er aðallega kjör stéttarinnar. Launin í dag eru yfir sársaukaþröskuldinum fyrir marga hjúkrunarfræðinga. Hér er um að ræða mikilvæga stétt sem er að miklum meiri hluta skipuð konum. Þetta er kvennastétt og það er því í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar að leiðrétta laun hennar. Í stjórnarsáttmálanum segir m.a., með leyfi forseta:

„Markviss skref verða tekin til að útrýma kynbundnum launamun.“

Eðlilegt skref í því að útrýma kynbundnum launamun hlýtur að vera að leiðrétta laun kvennastétta. Það er mikil eftirspurn í samfélaginu eftir hjúkrunarfræðingum en við sjáum núna að þær eru í miklum mæli að hverfa til annarra starfa þar sem vinnuálagið er minna og launin betri.

Við verðum að gera heilbrigðiskerfið að eftirsóknarverðum vinnustað fyrir fólk með viðeigandi menntun. Það er auðvitað á ábyrgð stjórnvalda að tryggja mönnun á Landspítalanum og það er líka á ábyrgð stjórnvalda að tryggja starfsmönnum sanngjörn og réttlát laun.

Þessi bráðavandi er hnútur, en eins og ég sé málið er vandinn tvíþættur. Annars vegar snýr hann að langtímavandamáli. Það er auðvelt að hafa ákveðna samúð með hæstv. heilbrigðisráðherra vegna þess að hún tók við erfiðu búi, m.a. vegna þess að mönnunarmál hafa ekki verið tækluð af festu til langs tíma, innan menntakerfisins o.s.frv. Hins vegar er til ákveðin skammtímalausn og eftir gott samtal við stjórnendur Landspítala í gær fékk ég það staðfest frá þeim að eins og þeir líta á málið snýr vandinn aðallega að launum hjúkrunarfræðinga og að hægt væri að höggva á þann gordíonshnút.

Ég ætla að (Forseti hringir.) freista þess að fara aðeins fram yfir tímann. Það þarf sem sagt að hækka laun hjúkrunarfræðinga. Þegar verið er að ræða laun t.d. ríkisforstjóra (Forseti hringir.) er oft talað um að við þurfum að vera í (Forseti hringir.) samkeppni við erlenda vinnumarkaði sem réttlæti hin háu laun (Forseti hringir.) forstjóranna. Nú veit ég ekki hvort mikil eftirspurn er eftir íslenskum ríkisforstjórum á öðrum vettvangi, í útlöndum, látum það liggja á milli hluta, en ég veit að það er mikil eftirspurn eftir (Forseti hringir.) hjúkrunarfræðingum, það er skortur á þeim. Ég veit að ríkisstjórnin vill ekki senda þau skilaboð til samfélagsins að það sé mikilvægara að manna forstjórastöður en stöður hjúkrunarfræðinga á spítalanum.

(Forseti (ÞórE): Enn minnir forseti á að ræðutími er afmarkaður.)