149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari umræðu. Hún er gríðarlega mikilvæg. Við þurfum að horfa til þess hvernig við leysum þennan vanda og hvernig stendur á því að við stöndum enn frammi fyrir honum í ljósi alls þess fjármagns sem veitt hefur verið til heilbrigðiskerfisins okkar á undanförnum árum. Það hefur svo sannarlega verið í forgangi hjá ríkisstjórnum sem hér hafa verið við völd öll undanfarin ár og útgjaldaaukningin er umtalsverð. Vandinn er sá að við höfum enga mælikvarða um afköst heilbrigðiskerfisins eða árangur af þeirri fjáraukningu sem þangað hefur streymt þegar málið kemur til umfjöllunar fjárlaganefndar. Þar vantar sárlega upp á.

Það er augljóst að víða er mikil sóun í þessu kerfi. Við byggjum tillögur okkar til úrlausna of oft á pólitískum kreddum, t.d. þegar kemur að því að ákvarða hvar hentugast sé að vinna tiltekin verkefni á sviði heilbrigðismála. Þar hefur mikil andstaða verið við hvers kyns einkarekstur óháð því hvort hagkvæmara reynist að leysa þau verkefni af hendi þar eða ekki. Við getum ekki nálgast lausnina með þessum hætti. Við verðum að vera miklu praktískari í nálgun okkar og leita ýtrustu hagkvæmni og sérhæfingar á hverju sviði fyrir sig. Við erum t.d. enn að senda sjúklinga utan í umtalsvert dýrari liðskiptaaðgerðir en hægt væri að sinna af hálfu einkarekinna aðila hér á landi. Þetta er vísvitandi sóun á almannafé.

Á sama tíma er alveg ljóst að mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins leysum við ekki við núverandi launastig. Þar þarf líka vilja til að leysa verkefnið. Núverandi þingmeirihluti þynnti hér út þingsályktunartillögu sem þingmenn Viðreisnar fluttu á síðasta vorþingi um átak til að lyfta kjörum kvennastétta og þá sérstaklega heilbrigðisstétta. Það er alveg ljóst að þegar byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga eru um 350.000 kr. á mánuði á sama tíma og lægsta tekjutíund hér á landi hefur liðlega 400.000 kr. í mánaðarlaun er (Forseti hringir.) þetta ekki mjög aðlaðandi fag að leita starfsframa í. Það skýrir kannski fyrst og síðast þann mönnunarvanda sem þar er við að etja.