149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:36]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Mig langar að nefna það sem kom fram í fréttum í gærkvöldi að læknar virðast vera gjörsamlega útkeyrðir, stór hluti af þeim hópi. Það kemur fram að það jafnvel örlar á því eða er farið að bera á kulnun í starfi og ég veit ekki hvað og hvað. Staðan virðist vera grafalvarleg. Þeir skila allt að tvöföldu vinnuálagi á viku, tvöfaldri fullri vinnuviku, allt að 80 stunda vinnuviku. Þetta er náttúrlega hrikalegt ástand. Ég veit að það eru ærin verkefni og yfirþyrmandi og mikil sem hæstv. heilbrigðisráðherra glímir við en ég efast ekki um að hún á eftir að tukta þetta almennilega til. Ég hef fulla trú á því. Við verðum bara að treysta því, við stólum á það. Í sambandi við það að 24% hjúkrunarfræðinga skuli ekki vera að vinna í faginu er stór áskorun hvernig hægt er að fá þá til að snúa aftur í fagstéttina sína og fara að vinna á spítölunum. Þetta eru gríðarlega stór verkefni, en ég held að ekkert sé ómögulegt í þeim efnum og ég trúi því og treysti að hæstv. heilbrigðisráðherra, þó að ég viti að hún hafi sannarlega mörg járn í eldinum, eigi eftir að takast þetta farsællega.

Mig langaði að ítreka spurningu mína um hvers vegna ekki sé búið að opna þessi 40 rými á Seltjarnarnesi, hjúkrunarrými fyrir aldraða, og hvað líði þessum 270 hjúkrunarrýmum sem talið er að skorti enn til viðbótar við þau 200 sem þó er verið að berjast við að taka í notkun.