149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

bráðavandi Landspítala.

[15:40]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu og efnislega. Hún er sannarlega gagnleg og það skiptir mjög miklu máli fyrir okkur sem stöndum í stafni íslenskrar heilbrigðisþjónustu að þingið sé samstiga í því að bæta þjónustuna. Ég tek undir að þetta er ekki nýtt verkefni og það er að sumu leyti uppsafnað til mjög langs tíma. Ég er mjög meðvituð um þann vanda sem lýst er í skýrslunni og áhrifin af honum, en hv. þingmaður spurði um áhrifin á starfsfólk og sjúklinga. Allar þær aðgerðir sem ég hef talið hér upp eru til þess að bæta þar úr og eru til marks um að ég tek þessi verkefni alvarlega. Það er líka mikilvægt að halda því til haga að það er á ábyrgð Landspítala að tryggja gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga ásamt því að skapa vinnuumhverfi sem laðar að starfsfólk. Landspítali axlar þá ábyrgð, því að það er afar mikilvægt að það sé skýrt, og kemur líka fram í nýrri heilbrigðisstefnu, hver ber hvaða ábyrgð og hvert er verkefni ráðuneytisins og einstakra stofnana.

Mig langaði í lok þessarar umræðu, því að ég mun ekki geta svarað öllum spurningunum sem hér komu fram, að segja að í heilbrigðisstefnu sem væntanlega verður mælt fyrir hér á næstu dögum — mögulega í næstu viku og er það á undan áætlun, sem betur fer því að ég tel mikilvægt að hv. velferðarnefnd hafi góðan tíma — erum við til að mynda að tala um fjármögnun kerfisins. Þar erum við að tala um fjármögnun kerfisins óháð rekstraraðila, hvort sem það eru einkaaðilar eða opinberir aðilar. Við erum að tala um gæðavísa sem er auðvitað mjög mikilvægt að séu fyrir hendi hjá öllum sem sinna heilbrigðisþjónustu. En þær aðgerðir sem ég hef nefnt hér eru að efla göngudeildarþjónustu, efla heilsugæsluna, samstarf við Kragasjúkrahúsin sem hv. þingmaður og fleiri spurðu um, efla uppbyggingu hjúkrunarrýma, auka sveigjanleika í þjónustu við aldraða, sem er líka mjög mikilvægt og margir hafa nefnt hér, og ekki síst að taka mönnunarvandann alvarlega með raunhæfum tillögum.

Virðulegur forseti. Ég vil í lokin þakka hv. þingmanni aftur fyrir að vekja máls á þessu. Ég held að það hvernig mér líður akkúrat núna í öndunarfærunum sé til marks um að ég hef miklu (Forseti hringir.) meira að segja en kem því ekki að hér í lokin. En ég vænti þess að við hv. þingmaður munum ræða þetta betur.