149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

ökutækjatryggingar.

436. mál
[15:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um ökutækjatryggingar. Í frumvarpinu er lagt til að sérstök lög muni gilda um lögmæltar ökutækjatryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja. Ákvæði um ökutækjatryggingar og bótaábyrgð er nú í XIII. kafla gildandi umferðarlaga en frumvarp til nýrra umferðarlaga án þeirra ákvæða hefur verið lagt fyrir Alþingi. Markmið frumvarpsins er annars vegar að gera gildandi lagaákvæði um lögmæltar ökutækjatryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja skýrari og hins vegar að bæta við nýjum ákvæðum til að tryggja enn frekar réttaröryggi vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja.

Helstu breytingar í frumvarpinu frá gildandi lögum eru þessar:

Í fyrsta lagi er gildissvið afmarkað nánar og lögfest verður sú framkvæmd að lögin gildi ekki þegar ökutæki er notað í öðrum tilgangi en sem ökutæki. Þá mun einnig falla utan gildissviðs laganna þegar ökutæki tekur þátt í aksturskeppni á lokuðu svæði sem leyfi hefur fengist fyrir samkvæmt umferðarlögum.

Í öðru lagi er lagt til að hugtakið ökutæki miðist við skráningarskyld ökutæki. Án skráningarskyldu er eftirlit útilokað og því nauðsynlegt að láta vátryggingarskyldu haldast í hendur við skráningarskyldu samkvæmt frumvarpi til nýrra umferðarlaga.

Í þriðja lagi er bætt við skilgreiningu á hugtakinu umráðamaður en það hugtak er ekki skilgreint í núgildandi umferðarlögum. Í frumvarpi til nýrra umferðarlaga er sambærileg skilgreining á því hugtaki.

Í fjórða lagi er það nýmæli í frumvarpinu að undanskilin skaðabótaábyrgð eru þau ökutæki sem eru í eigu björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar þegar þau draga önnur ökutæki í björgunarstarfi, enda liggi fyrir samþykki eiganda eða umráðamanns ökutækisins sem bjargað er. Markmið ákvæðisins er að fækka tilvikum þar sem föst ökutæki teppa umferð vegna ófærðar með þeim afleiðingum að umferðarleiðir lokast. Hingað til hafa björgunarsveitirnar borið ábyrgð á drætti við þessar aðstæður, sem er óviðunandi staða.

Í fimmta lagi er lagt til að ef eftirvagn eða annað tæki er fest við ökutæki í notkun leiði það til þess að ökutækið og hinn tengdi hlutur teljast vera ein heild. Þar af leiðandi eigi hlutlæg ábyrgð ökutækis ekki við ef tjón verður á eftirvagninum eða tækinu.

Í sjötta lagi verður það skýrt að umráðamanni ökutækis sé heimilt að vátryggja það í sínu nafni. Í slíkum tilvikum ber eigandi þó eftir sem áður ábyrgð á því að ökutækið sé með lögmæltar tryggingar.

Í sjöunda lagi er kveðið á um það nýmæli að lögboðið vátryggingaiðgjald skuli hvíla sem lögveð á ökutæki í tvö ár frá gjalddaga. Áréttað er að lögveðið nái aðeins til lögboðinna trygginga.

Í áttunda lagi er í frumvarpinu kveðið á um sameiginlega tilnefningu Félags íslenskra bifreiðaeigenda og Samtaka verslunar og þjónustu á nefndarmanni í endurkröfunefnd í stað tilnefningar Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Í gildandi lögum kemur fram að einn nefndarmanna skuli tilnefndur af landssamtökum bifreiðaeigenda og hefur ákvæðið verið túlkað þannig að í því felist sameiginleg tilnefning Félags íslenskra bifreiðaeigenda og Samtaka verslunar og þjónustu. Í frumvarpinu er sem sagt lagt til að það fyrirkomulag verði lögfest.

Í níunda lagi er kveðið á um að eftirlit Fjármálaeftirlitsins samkvæmt frumvarpinu taki aðeins til eftirlitsskyldra aðila samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

Í tíunda lagi er lögð til rýmkun á fyrningarreglum. Nú fyrnast allar kröfur á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Kröfurnar fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Í frumvarpinu er lagt til að fjögurra ára fyrningarfrestur eigi ekki við um bætur vegna líkamstjóns heldur að þær kröfur fyrnist á tíu árum. Áhrif frumvarpsins, verði það að lögum, eru einkum þau að breytingar á fyrningarreglum bæta réttarstöðu tjónþola og eyða réttaróvissu um upphaf fyrningarfrests. Ekki er þó gert ráð fyrir teljandi mælanlegum áhrifum á greiðsluskyldu vátryggingafélaga vegna þessarar tillögu.

Áhrif frumvarpsins á stofnanir eru óveruleg. Þær eiga að vera í stakk búnar til að takast á við þær breytingar sem lagasetningin mælir fyrir um.

Frumvarpið hefur engin fyrirséð fjárhagsáhrif á ríkissjóð.

Hæstv. forseti. Meginmarkmið frumvarpsins er að hafa sérstök lög um lögmæltar ökutækjatryggingar og gera gildandi ákvæði um bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja skýrari og nýmælum bætt við, auk þess að tryggja enn frekar réttaröryggi vegna tjóna af völdum vélknúinna ökutækja.

Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.