149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

opinber innkaup.

442. mál
[15:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 120/2016, um opinber innkaup. Helstu markmið frumvarpsins eru að gera tiltekin ákvæði í núgildandi lögum markvissari í framkvæmd og þannig stuðla enn betur að hagkvæmum innkaupum hins opinbera.

Með þeim lagabreytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er verið að tryggja að regluverk opinberra innkaupa styðji betur við stefnu hins opinbera í málaflokknum ásamt því að koma í veg fyrir að misræmi myndist milli innlendra reglna og EES-réttar við túlkun þeirra. Þá eru fyrirhugaðar breytingar nauðsynlegar til að stuðla að aukinni framleiðni í opinberri þjónustu til hagsbóta fyrir notendur, starfsmenn og skattgreiðendur. Breytingarnar munu gera opinberum kaupendum kleift að nýta sér í auknum mæli sveigjanlegri innkaupaferli, einkum í þeim tilvikum þegar tilboð eru óaðgengileg eða yfir fjárhagsáætlun. Með því er stefnt að því að draga úr kostnaði fyrir kaupendur og bjóðendur við framkvæmd innkaupa. Með gildistöku nýrra heildarlaga um opinber innkaup árið 2016 breikkaði gildissvið laganna og náðu þau í auknum mæli til félagsþjónustu og annarrar sértækrar þjónustu. Sú breyting hafði íþyngjandi áhrif á ríkisaðila og sveitarfélög að því leyti að flóknara regluverk tók gildi um slík þjónustukaup. Fyrirhuguðum breytingum er ætlað að skýra reglurnar og einfalda þannig að framkvæmd þessara ákvæða sé skilvirkari og draga einnig úr óvissu.

Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um nýmæli sem varðar keðjuábyrgð aðalverktaka gagnvart starfsmönnum undirverktaka í samræmi við stefnu stjórnvalda um innleiðingu slíks ákvæðis í ólíkum atvinnugreinum. Hingað til hefur þó ekki verið litið svo á að kaupendum sé óheimilt að krefjast keðjuábyrgðar samkvæmt gildandi lögum og hafa ýmsir opinberir aðilar haft slík ákvæði í sínum útboðsgögnum.

Meginmarkmið ákvæðisins er að sporna við mögulegri misnotkun á vinnuafli hér á landi ásamt því að auka vitund kaupenda um slíkt. Þá eru fyrirhugaðar breytingar á starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins sem leiða til þess að stofnunin Ríkiskaup verður lögð niður að forminu til en fær þess í stað form sérstakrar starfseiningar ráðuneytisins. Áhrif þessara breytinga eru þau að starfseiningin og verkefnin sem hún sinnir verða mun sveigjanlegri og fjölbreyttari en áður. Auk innkauparáðgjafar fyrir hið opinbera er gert ráð fyrir að starfseiningin muni vinna að verkefnum sem stuðla að aukinni samvinnu og samrekstri stofnana með víðtækari skírskotun, t.d. í tengslum við almenna fræðslu, árangursríka stjórnun, mannauðsráðgjöf og uppbyggingu í upplýsingatækni í innviðum. Eru þær breytingar sem stefnt er að í eðlilegu framhaldi af þeim áherslubreytingum sem þegar hafa verið gerðar á starfsemi stofnunarinnar og í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda. Með þessu eru stigin veigamikil skref í þá átt að auka umbótahlutverk stofnunarinnar og ná fram bættum árangri starfseminnar á sambærilegan hátt og gert hefur verið með álíka stofnanir á Norðurlöndum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. fjárlaganefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.