149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera húsnæðismálin að viðfangsefni mínu hér í dag í ljósi þess að átakshópur forsætisráðherra um aðgerðir á húsnæðismarkaði skilaði tillögum sínum í gær.

Fjölmargir komu að þeim átakshópi og heildarniðurstaðan er 40 tillögur í sjö flokkum. Eins og við öll þekkjum hafa húsnæðismál verið í hnút undanfarin ár og óþarfi að fjölyrða hér um þær fjölmörgu fréttir af vandræðum okkar Íslendinga og þeirra sem hér búa í þeim málum og þá sérstaklega unga fólksins. Þrátt fyrir mikla uppbyggingu undanfarin misseri og mikla áherslu á nýtt húsnæði bendir enn ekkert til að það framboð sem nú er að myndast muni henta tekju- og eignalágum.

En nú fer fólk vonandi að sjá til lands. Meðal tillagna þessa breiða átakshóps er stuðningur við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög, öruggari leigumarkaður fyrir leigjendur og þá er einnig lögð rík áhersla á mikilvægi skilvirkra almenningssamgangna. Ljóst er að þær leiðir sem farnar hafa verið hingað til í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis skila sér ekki til þessa hóps. Hann hefur orðið út undan á húsnæðismarkaði. Þá þurfum við að leita annarra leiða, t.d. með þessum sterku, óhagnaðardrifnu húsnæðisfélögum eins og lagt er til. Eins með því að bæta stöðu leigjenda, svo að þeir sem vilja frekar búa í leiguhúsnæði eigi þess kost og að það sé raunverulegt val. Þannig þarf að gæta að réttindum leigjenda og tillögur um leiguvernd ættu að vera vel til þess fallnar, en gæta þarf þó að því að breytingar á húsaleigulögum verði ekki til þess að hækka leiguverð eða draga úr framboði á leigumarkaði.

Mikil áhersla er lögð á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði og ljóst er að þar er enn verk að vinna. Ég tel þó að þessar tillögur séu afar mikilvægt gagn í þeirri vinnu sem fram undan er til að tryggja fólki öruggt húsnæði, bæta leigumarkaðinn og auka framboð á hagkvæmu húsnæði.

Það vekur jafnframt sérstaka athygli og ánægju hversu breið sátt virðist vera um niðurstöður hópsins. Sérstaka ánægju vakti að sjá að þeir aðilar sem nú sitja við samningaborðið í erfiðum kjaraviðræðum virðast (Forseti hringir.) vera ánægðir með þessar tillögur. En aðalmálið er að þær nái sem flestar fram að ganga og verði til þess að bæta hag lág- og millitekjufólks.