149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Um nýliðin áramót færðust málefni hinsegin fólks frá velferðarráðuneytinu yfir til forsætisráðuneytis, líklega í tengslum við yfirlýsingar um aðgerðir í þágu hinsegin fólks sem er að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Það vekur hins vegar athygli að þrátt fyrir þau fallegu orð eru Samtökin '78, einu hagsmunasamtök hinsegin fólks á Íslandi, verulega vanfjármögnuð og ef svo fer sem horfir stefnir í helmingsniðurskurð frá því sem samtökin fengu frá velferðarráðuneytinu í fyrra.

Heilar 6 millj. kr. þykir forsætisráðuneytinu viðeigandi að Samtökin '78 fái fyrir ómetanlegt starf sitt á sviði fræðslu og ráðgjafar til barna, ungmenna, aðstandenda, heilbrigðisstarfsfólks og áfram mætti telja. Þess má geta að á síðasta ári hlutu samtökin sérstaka viðurkenningu Barnaheilla fyrir fræðslu, félagsstarf og ráðgjöf um hinsegin málefni en það ár var viðurkenning Barnaheilla tileinkuð sérstaklega rétti allra barna til lífs og þroska og til jafnræðis.

Sem betur fer fyrir Samtökin '78 og fyrir fjölmarga skjólstæðinga samtakanna, fyrir heilbrigðisstarfsfólk og aðra þá sem málið snertir styður Reykjavíkurborg myndarlega við samtökin og heldur þannig lífi í þessari mikilvægu starfsemi, ef svo mætti segja. Stjórnvöld geta ekki endalaust talað á einn veg og forgangsraðað á annan. Þau geta ekki endalaust gert kröfu um og gengið út frá því að fólk beri ábyrgð, að einstaklingar beri ábyrgð á því að tryggja nauðsynleg og eðlileg mannréttindi í sjálfboðavinnu.

Málaflokkur hinsegin fólks átti að sögn að fá aukið vægi með tilfærslunni yfir í hið nýja ráðuneyti jafnréttismála. Ég vona að ekki sé ástæða til að óttast frekar að starfsemi enn einna frjálsra félagasamtaka sé stefnt í hættu af núverandi ríkisstjórn.