149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Nú er ár síðan ég tók fyrst sæti á Alþingi og hefur það verið áhugaverð reynsla að kynnast störfum þingsins. Þegar ég kom hér inn fyrir ári síðan var mikið rætt um að efla traust á þinginu og störfum þess. Ég fagnaði þeirri umræðu mjög enda höfum við lært af hinum ýmsu atburðum hér á Alþingi að það hefur reynst þingmönnum og ráðherrum erfitt að axla pólitíska ábyrgð.

Ég neita því ekki að þingmenn upp til hópa eru opnir fyrir málefnalegum umræðum og reyna að skilja allar hliðar mála. Hins vegar er ekki hægt að neita því að það er ákveðinn skortur á fjölbreytileika hér innan dyra. Án þess að draga í efa heilindi þeirra sem ég hef setið með á nefndarfundum eða í þingsal verðum við öll sem eitt að átta okkur á forréttindum okkar.

Ég talaði um það hér síðast þegar ég var í pontu að við þyrftum að geta sett okkur í spor unga fólksins til þess að geta byggt upp sjálfbært samfélag til framtíðar. Í dag kalla ég eftir því að við setjum okkur í spor fatlaðra, samkynhneigðra, fátækra, aldraðra og þeirra sem eru valdaminni. Vald er nefnilega vandmeðfarið og við sem valdhafar og þau okkar sem starfa fyrir fólkið í landinu berum mikla ábyrgð. Ábyrgðin felst í því að vera tilbúin að viðurkenna mistök. Það felur í sér að viðurkenna að við vitum ekki allt. Og fyrst og fremst felur það í sér skyldu til að hlusta og taka mark á þeim sem kjósa okkur til valda. Ef við gleymum okkur í forréttindunum okkar og valdi tel ég að við endum á því að taka ákvarðanir sem eru ekki samfélaginu í hag.

Eitt skref í að efla þessa ábyrgð væri t.d. að opna nefndarfundi. Í nefndum Alþingis eru nefnilega málin rædd, en þar skortir gríðarlega á fjölbreytileika á fundum. Í gær sat ég t.d. fund þar sem voru fimm karlar og tvær konur. Heyrir þetta til undantekninga því að í öðrum nefndum situr kannski bara ein kona. Og það er bara ein breyta. Ég ætla ekki að alhæfa um kynhneigð, fjárhagsstöðu eða aldur þessa fólks. En eitt er víst að þarna liggur vald og það er, á meðan nefndarfundir eru lokaðir, ekki gagnsætt og erfitt að hemja það. Leynd skapar óvissu og óvissa skapar vantraust. Á meðan kerfið er sett upp á þennan hátt verðum við að verða öflugri í (Forseti hringir.) því að muna að valdi og forréttindum fylgir ábyrgð.