149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja örlítið um jafnræði í samgönguáætlun. Nú borgum við öll í sameiginlega sjóði á jafnræðisgrundvelli, sérstaklega til samgönguáætlunar þar sem þeir sem nota borga, t.d. í gegnum bensíngjald.

Fyrir þinginu liggur samgönguáætlun þar sem fjármunum er skipt á ákveðinn hátt á milli svæða. Það er að vissu leyti skiljanlegt að fé rati síður á höfuðborgarsvæðið en út á land þar sem vegir eru lengri og kostnaður við framkvæmdir vegna langra vega er mikill. Samt sem áður verður mest af bensíngjaldinu til á stórhöfuðborgarsvæðinu. Við skiljum einhvern mun þar á milli.

Sú sviðsmynd sem blasir við okkur í tillögum meiri hlutans vegna veggjalda skekkir það jafnræði sem fram kemur í samgönguáætlun. Þar er hlutfall samgönguframkvæmda á stórhöfuðborgarsvæðinu minnkað ef horft er til þeirra fjármuna sem við greiðum í sameiginlega sjóði.

Það fjármagn mun verða tekið af stórhöfuðborgarsvæðinu og fært annað. Í staðinn þurfa íbúar á stórhöfuðborgarsvæðinu, allt til Borgarness og Selfoss, og þeir sem nota það aðallega, að borga veggjöld aukalega. Þeir þurfa sem sagt að borga aukinn skatt vegna þessara lífsnauðsynlegu framkvæmda eins og hæstv. samgönguráðherra hefur orðað það.

Ekki er nóg með að það jafnræði sem birtist í samgönguáætluninni sé eins skekkt og raun ber vitni, að vissu leyti skiljanlega, heldur minnkar jafnræðið. Höfuðborgarbúar fá hlutfallslega minna úr sameiginlegum sjóðum ef tillagan um veggjöld verður að veruleika og þurfa síðan að borga meira með veggjöldum.

Það er skekkjan í því jafnræði sem ég var að tala um að veggjöldin færðu okkur. Ég hafna henni.