149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nýjustu mælingar sýna að hlutfall koltvísýrings í lofthjúpi jarðar er komið upp í 410 parta af milljón. Þetta er hlutfall sem hefur ekki sést í 800.000 ár í það minnsta samkvæmt ískjarnasýnum. Loftslagsvandinn fer vaxandi. Við vitum þetta. Við vitum líka u.þ.b. hvernig lausnin lítur út. Það sem við þurfum að gera er að draga verulega úr losun koltvísýrings. Losun jarðarbúa er um 21 milljarður tonna koltvísýringsígilda árlega. Þar af bera Íslendingar ábyrgð á um 4 milljónum tonna. Þetta ætlum við að minnka niður í sem nemur 3 milljónum tonna fyrir árið 2030. Ríkisstjórnin lofar árangri í loftslagsáætlun sinni.

En frá því að sérstök umræða átti sér stað um loftslagsmálin sl. haust hefur u.þ.b. 1/20 af tímanum sem við höfum fram til ársins 2030 liðið. Það er auðvitað mikilvægt að allar aðgerðir komist á fulla ferð og að Alþingi sé jafnframt upplýst um framvinduna. En við þurfum meira en bara handaveifingar. Við þurfum einhvern mælanlegan árangur. Það hefur komið fram töluverð gagnrýni á árangurinn sem hefur sést til þessa, m.a. í formi könnunar á vegum Gallup þar sem 75% Íslendinga gefa viðleitni stjórnvalda og sveitarfélaga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda meðaleinkunn eða lægri. Það hefur heldur ekki enn þá verið svarað fyrir gagnrýni sem kom fram í áðurnefndri sérstakri umræðu, sem lýtur að því að einstök markmið loftslagsáætlunar ríkisstjórnarinnar eru ekki tölusett upp á áætlaðan samdrátt á losun CO2-ígilda.

Það er nauðsynlegt að við hér á Alþingi tökum þennan málaflokk í algjöra gjörgæslu og tryggjum að við náum tilætluðum árangri vegna þess að við höfum ekki um margar aðrar plánetur að velja. Ef við klúðrum þessu núna er voðinn vís (Forseti hringir.) þannig að ég legg til að við stöndum okkur betur.