149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Á aðventunni á síðustu dögum þingsins fyrir jól brast hér á orðræða um samskipti okkar við umheiminn, afstöðu og viðmót gagnvart þeim sem eiga á brattann að sækja í veröldinni, eiga jafnvel hvergi vísan samastað, oft kallaðir flóttamenn. Tilefnið var fregnir af því að Ísland ætlaði að vera eitt þeirra landa sem gerðust aðilar að alþjóðasamþykkt um farendur sem undirrituð var í Marrakesh þann 11. desember. Þingmaður Miðflokksins lýsti því í ræðustól að samningur þessi væri varhugaverður og kynni að leiða til hins mesta ófögnuðar fyrir þjóðina. Yfir landið myndi flæða nánast óstjórnin öll af fólki af ýmsum kynþáttum með ófyrirséðum afleiðingum og jafnvel geta vegið að fullveldi Íslands.

Sami tónn var sleginn hjá þessum flokki í atkvæðagreiðslu um veitingu ríkisborgararéttar á lokadegi þingsins. Að minnsta kosti hluti flokksins greiddi ekki atkvæði með frumvarpinu um 26 nýja ríkisborgara. Það er dapurlegt og umhugsunarefni að þau viðhorf sem endurspeglast í afstöðu þessa flokks er að finna hér og hvar í samfélaginu, þessi viðhorf sem fyrst og fremst eru sprottin af skilningsleysi, vanþekkingu og fordómum.

Við teljum okkur vera upplýsta þjóð en á þessu sviði þurfum við að gera betur, að fræða og kynna almenningi samhengið, stóru myndina, orsakir og afleiðingar og hlutskipti fólks sem er að leita að tryggari framtíð fyrir sig og börn sín.

Hér hafa stjórnvöld ríkum forystuskyldum að gegna. Nú eru tæplega 250 milljónir manna á faraldsfæti í heiminum utan síns heimalands og hafa aldrei verið fleiri. Hlutfall innflytjenda á Íslandi er ört að nálgast meðaltal nágrannalanda okkar í Evrópu. Við erum gestrisin en við stöndum okkur hins vegar alls ekki eins vel í því verkefni að laga innflytjendur að samfélagi okkar og okkur að þeim vissulega. Þess sjást merki í félagslegri þjónustu, í skólunum og á vinnumarkaði.

Á dagskrá þingsins síðar í dag, virðulegur forseti, er tillaga Samfylkingarinnar um mótun löngu tímabærrar stefnu í málefnum innflytjenda sem vonandi fær málefnalega og yfirvegaða umfjöllun í þinginu.