149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Í dag var 49 starfsmönnum sprota- og tæknifyrirtækisins Novomatic sagt upp störfum og jafnframt tilkynnt að fyrirtækið myndi loka starfsemi sinni hér á landi á þessu ári. Þetta er ein af mörgum fregnum sem við höfum fengið á undanförnum misserum um versnandi samkeppnisstöðu tækni- og sprotafyrirtækja og ekki síst ferðaþjónustufyrirtækja, ekki hvað síst vegna óstöðugleika íslensku krónunnar og þess óstöðuga og óásættanlega rekstrarumhverfis sem krónan skapar þessum fyrirtækjum.

Við fengum líka fréttir um það frá kvikmyndagerðarmönnum að þetta umhverfi væri algjörlega óásættanlegt til einhverrar langtímastefnumótunar eða -áætlanagerðar og að erfitt væri að laða hingað til lands aðila sem tilbúnir væru að ráðast í verkefni vegna þess að engin leið væri að sjá fyrir það rekstrarumhverfi eða þann kostnað sem af verkefnunum myndi hljótast.

Þessi ríkisstjórn segir hins vegar að íslenska krónan sé það besta sem sé í boði fyrir okkur. Ætla mætti að henni þyki þessi mynt sú besta í heimi og þetta snúist ekkert um skammstafanir, þetta snúist bara um stöðugleika. Þá sögu höfum við heyrt hér árum og raunar áratugum saman, en aldrei breytist neitt varðandi þennan margboðaða stöðugleika.

Getur verið að ástæðan sé sú að íslenska krónan magnar upp hagsveiflurnar, eins og svo ótal dæmi eru um, en jafnar þær ekki út eins og stuðningsmenn hennar fara svo gjarnan yfir á tyllidögum?

Ég held að það sé deginum ljósara þegar við horfum upp á að hér hefur lítill vöxtur orðið í tækni- og sprotageirum á undanförnum árum vegna þessa óstöðuga umhverfis, að við töpum hér verðmætum hálaunastörfum út úr hagkerfinu vegna þessa óstöðuga umhverfis, að kannski snúist vandinn á endanum einmitt um skammstafanir þær sem í boði eru á þeim gjaldmiðli sem við notum. Ég held að tími sé kominn til að breyta því.