149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera að umtalsefni stöðu grunnþjónustu í heilsugæslu og sjúkraflutningum í dreifðum byggðum og tek sem dæmi Rangárþing og Vestur-Skaftafellssýslu. Ég býst við að þetta eigi við víðar. Þessi þjónusta hefur verið sett undir hatt Heilbrigðisstofnunar Suðurlands þar sem hún er sett á herðar yfirstjórnar sem skipuleggur hana ásamt því að reka sjúkrahús á Selfossi með fjölbreyttri starfsemi. Sífellt er verið að rýra aðgengi að þessari þjónustu í heimabyggð. Sem dæmi má nefna að aldraður maður sem verið hefur í sjúkrahúsmeðferð óskaði eftir því að komast að á heilsugæslunni á Hvolsvelli sl. mánudag og hann fær tíma 10 dögum síðar, í næstu viku.

Þjónusta sjúkraflutninga fer einnig versnandi og nú síðast var tilkynnt um að aðeins verði bakvaktir í hlutastarfi á svæðinu. Treysta verður í æ auknum mæli á sjúkraflutninga frá Selfossi. Það er í hæsta máta ósanngjarnt að afrakstur heimamanna af auknum ferðamannastraumi á stórum ferðamannasvæðum skuli vera verri þjónusta á þessu sviði en var áður en ferðamannastraumurinn tók kipp.

Á Kirkjubæjarklaustri eru starfandi einn hjúkrunarfræðingur og einn læknir. Fyrir skömmu varð hörmulegt slys við mjög erfiðar aðstæður. Það tók langan tíma fyrir viðbótarfagaðila að komast á vettvang. Ég verð að segja að ég tek ofan fyrir því fólki sem er nægilega hugrakkt til að vinna við þessar aðstæður.

Þetta kerfi tel ég sýna að vilji löggjafans nær varla fram að ganga. Ég veit að vilji þingmanna stendur ekki til þess að þjónustan rýrni ár frá ári, en í raun fáum við því ekki ráðið. Ég velti því upp hvort eðlilegt sé að stór stofnun með marga ólíka rekstrarþætti sé látin vega og meta algjöra grunnþjónustu á fjarlægum stöðum á móti starfsemi sjúkrahúss, sem er reyndar staðsett á næstu hæðum fyrir neðan aðsetur stjórnendanna. Er það sanngjarnt og er það líklegt til að leiða til góðrar niðurstöðu?

Spurningin er: Eru til skárri lausnir? Er hægt að vinna með sveitarfélögunum og slökkviliðum þeirra í sambandi við rekstur sjúkraflutninga? Og ein spurning sem þyrfti að ræða miklu betur: Er hægt að finna leiðir til að heimamenn á þeim svæðum sem afla mikilla tekna í þjóðarbúið, eins og stórum ferðamannasvæðum, njóti þeirra í einhverjum mæli?