149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi.

274. mál
[15:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður hafi tekið það skýrt fram að hann væri ekki að fordæma það að menn vildu ræða alþjóðasamninga sem Ísland hyggst gerast aðili að eða hugðist gerast aðili að. En fyrir vikið er ákaflega sérkennilegt að hann skuli hafa stillt málinu upp með þeim hætti sem hann gerði, að ræða þetta í samhengi við einhverjar öfgahreyfingar í Evrópu, vegna þess eins að einn hv. þingmaður skyldi vekja athygli á því að engin umræða hefði farið hér fram um mikilvægan alþjóðasamning. Þá spyr maður sig hvort af tvennu eigi við: Skiptir þessi samningur engu máli? Hefur hann engin áhrif? Ætlar Ísland ekki að fylgja honum í framhaldinu? Eða var hv. þingmaður eingöngu að nota þetta sem tilefni til að setja pólitískan andstæðing sinn í ákveðinn hóp og fordæma hann? Er hv. þingmaður ekki uppvís að fordómum?

Mín reynsla af stjórnmálaumræðu á Íslandi og reyndar miklu víðar er sú að það er iðulega það fólk sem státar sig helst af því að það sé fordómalaust sem hefur mesta fordóma í garð annarra og leitar að verstu syndum sem það getur fundið og reynir að heimfæra það upp á annað fólk og fordæma það með þeim hætti en upphefja sjálft sig um leið.

Er ekki eðlilegt að þegar Ísland hyggst taka þátt í alþjóðasamstarfi þá ræði menn hvað það felur í sér? Eða hvað var það sem hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson sagði, sem gaf til kynna að hann vildi eitthvað annað, hefði einhver annarleg markmið, vildi ekki bara fá umræðu um það hvort þessi samningur væri til þess fallinn að ná þeim markmiðum sem hv. þingmaður lýsti einmitt í ræðu sinni og við hljótum að vera sammála um að tryggja jafnrétti og líf án mismununar og lífsgæði fólks á Íslandi?