149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi.

274. mál
[16:09]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni athugasemdirnar. Eins og ég kom að í ræðu minni er kannski eðlilegt að hér sé ekki talað um mögulega stofnun sem ekki er enn orðin til. En af því að við erum farin að ræða hana, þó að hún tilheyri strangt til tekið öðru þingmáli, er þetta allt undir sama hatti og við erum að hugsa öll á sömu nótum. Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að skoða stofnanaumhverfið þar, eins og er reyndar sagt í þessu ágæta máli. Ég vona að hv. velferðarnefnd skoði með opnum huga hvernig því er best fyrir komið.

Hv. þingmaður nefndi Fjölmenningarsetur og það mikilvæga starf sem þar er unnið. Það er alveg rétt, eins og komið er inn á í því máli sem við höfum mælt fyrir varðandi ráðgjafarstofu innflytjenda. Hvort það verði tvær stofnanir, eins og hv. þingmaður kom inn á, eða ein er aukaatriði, mikilvægasti hluturinn er að þetta nýtist þeim sem á þurfa að halda hvað best. Hlutverk Fjölmenningarseturs er að vera stjórnvöldum til ráðgjafar, ekki síst varðandi stefnumótun.

Ákveðin rök hníga í þá átt að sú stofnun sem sér um þjónustuna eigi að vera meira aðskilin frá stjórnvöldum, eigi fyrst og fremst að huga að þeim sem sækja þjónustuna þangað en ekki vera með bein tengsl við stjórnvöld og stefnumótun. Það eru ýmsar leiðir til þess; tvær stofnanir, tvær deildir innan sömu stofnunar o.s.frv. Ástæðan fyrir því að ég minntist á það mál, virðulegur forseti, er að mér finnst það kallast svo á við þetta mál. Hér er beinlínis sagt að mikilvægt sé að bæta stofnanaumgjörð innflytjendamála og mér finnst hugmyndin og tillagan um ráðgjafarstofu innflytjenda smellpassa inn í það.