149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi.

274. mál
[16:13]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég gæti ekki verið meira sammála hv. þingmanni, get tekið undir hvert einasta orð í máli hans. Mér sýnist að mér hafi tekist að lauma inn í umræðuna hugmynd um ráðgjafarstofu innflytjenda meðan það er enn í umfjöllun í nefnd. Það var ekki ætlun mín, en ég tek boði hv. þingmanns til að ræða þau mál fagnandi. Ég deili akkúrat þeirri sýn sem hv. þingmaður kom inn á, að mikilvægast er að efla vitund og þjónustu, á endanum snýst þetta um að fólki líði sem best.

Hv. þingmaður nefndi marga áhugaverða þætti þegar kemur að þjónustu eins og liggur að baki hugmyndinni um ráðgjafarstofu innflytjenda, Vinnumálastofnun og Rauða krossinn. Verkalýðshreyfingin hefur verið með bæði menntun og svo stuðning þegar kemur að sjálfsögðum kjörum og öllu er tengist atvinnuþátttöku, rekur símenntun og fleira slíkt, þannig að af nógu er að taka til að hugsa um hvernig þessu er best fyrir komið. Þess vegna var hugsunin með ráðgjafarstofu innflytjenda sú að kannski væri þörf á einhverju nýju fyrirbæri sem væri yfir öllu þessu, skæri sig þvert í gegnum þetta allt, því að þetta lýtur að þjónustu ríkis, þjónustu sveitarfélaga, réttindum og skyldum á vinnumarkaði, réttindum hvað varðar menntun, stuðningi við atvinnuþátttöku og almennri þátttöku í samfélaginu o.s.frv. Hvað stofnunin heitir skiptir engu máli. Hvernig hún er skipulögð skiptir engu máli heldur ef hún virkar. Hvar hún er stödd, ég held að það endi þannig að það verði þjónustumiðstöðvar eða útibú, ég vona það, þar sem innflytjendur geti nálgast sem víðast í samfélaginu, hvað sem þau heita.