149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi.

274. mál
[16:34]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu frá hv. þm. Guðjóni Brjánssyni og öðrum hv. þingmönnum Samfylkingarinnar um mótun stefnu sem efli fólk af erlendum uppruna til þátttöku í íslensku samfélagi.

Ég held að hér sé á ferðinni afar mikilvægt mál, þó ekki væri nema fyrir þá ástæðu eina að ég held að öll umræða um mál innflytjenda og um það hvernig við sem samfélag aðlögum okkur að því að fólk víða að úr heiminum vilji setjast hér að og búa og hvernig við sem samfélag vinnum að því að taka vel á móti fólki, bjóða það velkomið, sé afar mikilvæg. Þannig finnst mér að umræðan eigi að snúa. Íslendingar eru kannski háðari því en mjög margar aðrar þjóðir að við þurfum í mjög ríkum mæli að sækja okkur þekkingu og nám og fleira erlendis og erum þess vegna mörg á þeim tíma aðkomufólk eða innflytjendur í einhverjum skilningi í öðrum löndum, mjög víða. Ég held að okkur flestum finnist að þar sem við séum alla vega Vestur-Evrópuríki sem í mörgu tilliti telur sig vera ákaflega þróað og allt það þá hljóti allir að taka voðalega vel á móti okkur. Samt er það þannig að við erum upp á náð annarra komin þegar við setjumst þar að.

Þess vegna er það að mínu mati okkur enn þá mikilvægara, kannski myndi einhver segja sæmst, þegar aðrir eru í þeirri stöðu að koma hingað, hvort sem það er út úr neyð eða hreinlega af áhuga eða til að framfleyta sér eða sækja atvinnu, að taka vel á móti þeim. Það er eins og kom fram í umræðunni áðan það sem flest trúarbrögð myndu líta á sem mjög jákvæða nálgun á gesti og þá sem heimsækja okkur.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvað fólk sem flytur hingað til að starfa er mikilvægt íslensku samfélagi. Við vitum að til að mynda sjúkrahúsin og sennilega flestar heilbrigðisstofnanir myndu ekki fúnkera almennilega ef ekki væri framboð á erlendu vinnuafli, fólki sem vinnur þau störf, alla vega tímabundið, sem Íslendingar virðast ekki hafa nægilega mikinn áhuga á.

Þar komum við að því hversu mikilvægt er að við tryggjum t.d. réttindi þeirra einstaklinga sem hingað koma til að starfa. Það er í aðra röndina það sem þessi tillaga fjallar um, að gera fólki sem við viljum taka á móti, sem við viljum hafa sem hluta af samfélaginu, kleift að skilja réttindi sín og njóta þeirra. Þess vegna er þetta mjög mikilvægt.

Síðan er ekki hvað síst mikilvægt að ræða þessi mál í því sem ég vil kalla forvarnaskyni. Jákvæð umræða um þá sem hingað vilja flytja og þá sem vilja setjast hér að er sennilega einhver öflugasta forvörnin gegn alls kyns öfgaöflum, gegn alls kyns jaðarsjónarmiðum, sem hafa vaðið uppi víða í löndunum í kringum okkur og sum hver komin býsna nálægt því að setjast þar að stjórnvölnum og jafnvel komist alla leið hvað það varðar.

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem samfélag, ef við viljum áfram hafa opið samfélag, ef við viljum áfram hafa samfélag sem tekur vel á móti öllum, að það sé umræða um að það sé einmitt jákvætt að taka á móti fólki af erlendum uppruna, að það sé jákvætt að útskýra fyrir fólki að það eigi réttindi og það séu mannréttindi sem við sem samfélag ætlum ekki að ganga á svig við. Þá er vel af stað farið.

Ég vona náttúrlega að þessi ágæta tillaga rati til hv. velferðarnefndar. En verði svo ekki þá hlakka ég til að sjá þá afurð sem kemur þá væntanlega frá allsherjar- og menntamálanefnd, ef svo yrði, við síðari umr. málsins.