149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu.

147. mál
[16:40]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Ég flyt hér ásamt hv. þm. Jóni Gunnarssyni mál sem áður var lagt fram á 141. löggjafarþingi og þá af Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, þáverandi forseta Alþingis. Það er rétt að geta þess að bæði ég og hv. þm. Jón Gunnarsson ákváðum nánast samtímis að tímabært og raunar nauðsynlegt væri að endurflytja þetta mál; við sammæltumst því um að flytja það saman.

Það sem gerst hefur frá því að þetta mál var fyrst lagt fram er á mjög margan hátt til þess fallið að renna stoðum undir mikilvægi þess að Alþingi ráðist í þessa lagabreytingu sem fyrst. Markmið laganna, eða þessa frumvarps, er að tryggja ábyrgð Alþingis á gerð skipulagsáætlana og þátttöku í veitingu framkvæmda- og byggingarleyfa á Alþingissvæðinu. Með orðinu Alþingissvæðið er átt við nánasta umhverfi þinghússins hér í miðbæ Reykjavíkur.

Á undanförnum árum hafa orðið gríðarlega miklar breytingar í miðbæ Reykjavíkur og því miður eru þær ekki allar til bóta og Reykjavíkurborg hefur á margan hátt gengið fram með hætti sem að mínu mati og margra annarra er mjög skaðlegur umhverfinu hér í miðborginni. Þetta hefur verið drifið áfram af sífellt aukinni hagnaðarvon vegna hækkandi fasteignaverðs og ásóknar í að nýta sem mest svæðið hér í miðborginni. Þá hefur verið gengið á sögulegt umhverfi, gengið á menningarverðmæti og þarf ekki að leita langt til að finna dæmi um slíkt. Það er nóg að líta hér yfir götuna þar sem menn hafa verið að moka burtu hugsanlega elsta kirkjugarði landsins, þar sem Reykvíkingar voru bornir til grafar í hátt í 1000 ár, fólkið sem byggði þessa borg og þróaði. En dæmin eru hins vegar miklu fleiri. Ég ætla ekki að rekja þau öll hér enda ekki tími til þess. En allt í kringum þinghúsið verða menn mjög áþreifanlega varir við þessa þróun, ekki bara þegar þeir fara fram hjá framkvæmdasvæðum og sjá þau, heldur upplifa þingmenn það nú nánast daglega að heyra mikil högg og þrumur og upplifa manngerða jarðskjálfta vegna þessara framkvæmda allra sem, eins og ég nefndi, eru drifnar áfram af sífellt aukinni hagnaðarvon sem gengur út á það að auka byggingarmagnið jafnt og þétt og ganga á þessa annars fíngerðu og lengst af hófstilltu byggð sem einkennir miðbæ Reykjavíkur.

En hvað sem því öllu líður hljóta að gilda eða eiga að gilda sérstakar reglur um nánasta umhverfi Alþingis. Til að skýra það með dæmum getum við gert okkur í hugarlund hvort það yrði látið viðgangast í nokkru nágrannaríkja okkar að ráðist yrði í framkvæmdir á borð við það sem nú stendur yfir hér bara fáeinum metrum frá þinghúsinu, án þess að Alþingi, þingið sjálft, löggjafinn, hefði eitthvað um það að segja. Aðkoma þingsins að þessum málum hefur ekki verið önnur en sú að senda erindi til Reykjavíkurborgar rétt eins og hver annar umsagnaraðili og þau erindi hafa verið lítilsvirt, virt að vettugi ítrekað. Og til að bæta gráu ofan á svart og sýna vald sitt hefur meira að segja borgin í andstöðu við vilja þingsins hent grjóti hér ekki í þinghúsið en rétt að því sem mikið lýti er að. Auðvitað hafa menn ólíkar skoðanir á því á hvað fari vel í umhverfinu og hvað síður. En það hlýtur að vera eðlilegt að gera þá kröfu að Alþingi, löggjafinn sjálfur, hafi meira um það að segja hvernig nánasta umhverfi þinghússins þróast en raun hefur borið vitni. Enda er staða þingsins tryggð með mjög áþreifanlegum hætti í stjórnarskrá, m.a. varðandi ákvæði um friðhelgi þingsins og að ekki megi raska starfsfriði Alþingis.

En aftur að samanburðinum við útlönd. Getur einhver ímyndað sér að nokkurn tímann hefði verið heimilað að grafa nánast upp að breska þinghúsinu til þess að koma þar fyrir hóteli þar sem menn mundu svo eiga von á stöðugum ferðum stórra bifreiða og auðvitað fólks án þess að breska þingið hefði haft eitthvað meira um það að segja en að geta sent inn erindi til skipulagsyfirvalda í London? Að sjálfsögðu hefði slíkt aldrei komið til greina. Ég hygg að ekkert löggjafarþing í Evrópu mundi láta bjóða sér það að borgaryfirvöld í höfuðstaðnum ákvæðu einfaldlega að þrengja að starfsemi þingsins og að því marki sem við sjáum hér bara fyrir utan gluggann, að nýframkvæmdirnar nái nánast upp að húsum þingsins. Ég held að það séu einhverjir fimm metrar eða svo sem vantar þar upp á.

Þessi samanburður við önnur lönd gerir það að mínu mati að minnsta kosti augljóst hversu veik staða Alþingis er hvað varðar umhverfi þingsins. Ég skora á þann sem getur bent mér á eitthvað annað að sýna fram á að annað þjóðþing í nágrannalöndunum mundi una við slíkt. Það var mat þáverandi þingforseta, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, að við þetta ástand yrði ekki unað og það fyrir allmörgum árum. Eins og ég nefndi í byrjun hefur það orðið æ ljósara hversu mikilvægt þetta framlag þáverandi þingforseta var og hversu mikil synd það er að frumvarpið skuli ekki nú þegar verið orðið að lögum, því það hefði getað gert þinginu kleift að standa vörð um nánasta umhverfi þingstarfanna.

Mikið er rætt um það, þegar skipulagsmál ber á góma, að þau séu alfarið í höndum sveitarfélaga og það hefur verið nefnt í þessu samhengi líka, að Reykjavíkurborg fari með skipulagsvaldið sem sveitarfélag og á einhvern hátt væri verið að ganga á hlut, ekki bara Reykjavíkur heldur jafnvel sveitarfélaga almennt, með því að gera breytingar þar á þó að þessi reitur sé auðvitað afskaplega lítill miðað við stærð Reykjavíkur í heild. En þá er þess að geta að með þessu er alls ekki brotið blað.

Ég nefndi hér dæmi frá útlöndum, en einnig má geta þess að skipulagsvald á Keflavíkurflugvelli og umhverfi hans er með sérstökum hætti og heyrir undir skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar. Það sama á við um Þingvelli, en þar hefur Þingvallanefnd sérstöku hlutverki að gegna varðandi skipulag í þjóðgarðinum. Í hvorugu tilvikinu getur sveitarfélagið eitt ráðið för. Ég geri ekki ráð fyrir að ég þurfi að rekja hér ítarlega ástæður þess. Að mínu mati liggja þær í augum uppi. En mér þykja ástæðurnar jafn augljósar í tilviki Alþingis, í tilviki löggjafans, sem gerir Reykjavíkurborg þann heiður að starfa hér og gera þar með Reykjavík að höfuðborg landsins. Það voru ekki allir sammála því á sínum tíma að sú ætti að verða raunin og töluvert var tekist á um það t.d. hvort Reykjavík eða Þingvellir ættu að vera höfuðstaðurinn en ákveðið af praktískum ástæðum að það skyldi vera Reykjavík. En því fylgja að sjálfsögðu skyldur á móti af hálfu borgarinnar, enda er Alþingi þing landsins alls, ekki bara þing Reykjavíkur og Reykvíkinga, og þar af leiðandi eðlilegt, sérstaklega í samanburði við þau fordæmi sem þegar eru til staðar, að þingið hafi eitthvað um það að segja hvernig nánasta umhverfi þess er skipulagt og eins og ég gat um áðan þörfin fyrir slíka aðkomu hefur á undanförnum árum orðið sífellt augljósari.

En tillagan er sú að ráðherra fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á Alþingissvæðinu en skipi fimm menn í skipulags- og byggingarnefnd Alþingissvæðisins. Tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Alþingis, tveir samkvæmt tilnefningu Reykjavíkurborgar og einn af ráðherra án tilnefningar. Og þarna kemur það skýrt fram að ætlunin er alls ekki að setja Reykjavíkurborg, sveitarfélagið, alveg til hliðar í þessum málum. Reykjavíkurborg mun áfram hafa virka aðkomu að skipulagi svæðisins hér í gegnum þessa nefnd og allt það ferli sem ætti sér stað í framhaldinu vegna ákvarðana nefndarinnar. Þar má til að mynda nefna að skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar mun starfa með skipulags- og byggingarnefnd Alþingissvæðisins og sitja fundi hennar með málfrelsi og tillögurétt og byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar annast eftirlit með mannvirkjagerð á Alþingissvæðinu í samræmi við ákvæði laga.

Ég gæti rakið fleira er varðar samskipti nefndarinnar við borgina, en allt ber það að sama brunni og er lýst í frumvarpinu og greinargerð með því og gengur út á að þetta sé samstarf þingsins og borgarinnar um skipulag þessa svæðis. Það eru því margar ástæður til að ætla að þessi breyting yrði til mikilla bóta, en fyrst og fremst er þetta að mínu mati til þess að undirstrika sérstöðu Alþingis, sérstöðu löggjafans, sem er ekki eins og hvert annað fyrirtæki, er ekki eins og hvert annað hótel, heldur er hluti af landinu öllu á vissan hátt. Þó að Reykjavík fái að njóta þess heiðurs að vera höfuðborg landsins þá þarf hún á móti að virða sérstöðu þingsins og veita því tækifæri til að hafa eitthvað um skipulag umhverfisins að segja.

Ég gæti rakið fleiri dæmi um það hvað aflögu hefur farið á undanförnum árum. Ég ætla að láta hjá líða að gera það í þessari ræðu. Ég hef skrifað töluvert um það að undanförnu og mun gera áfram, en þróunin hefur borið það með sér að skortur sé á virðingu fyrir mikilvægum atriðum er varða umhverfi þingsins, hvort sem þau eru fagurfræðileg, praktísk, varða aðgengi, varða öryggi og þar fram eftir götunum.

Ég á von á því að þetta mál fái sem greiðasta leið hér í gegnum þingið, að sjálfsögðu með eðlilegri málsmeðferð. Ég er ekki að ætlast til þess að þingsköp verði brotin til að klára þetta bara strax án umræðu, en það er knýjandi þörf fyrir að endurskoða með hvaða hætti skipulagi þessa svæðis skuli háttað og þarf ekki annað en að líta út um gluggann til þess að átta sig á því.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þetta mál gangi til hv. umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.