149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu.

147. mál
[16:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á að þakka flutningsmönnum fyrir árvekni þeirra í þessu máli. Ég hef kynnt mér frumvarpið og vil lýsa því að ég tek undir það í megindráttum.

Ég staldra við eitt atriði þó sem ég vildi gjarnan inna hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson eftir, en það varðar stjórn skipulags- og mannvirkjamála á Alþingissvæðinu sem hv. þingmaður gerði að nokkru umtalsefni í framsöguræðu sinni. Það sem ég staldra við er að gert er ráð fyrir að í fimm manna skipulags- og byggingarnefnd Alþingissvæðisins verði tveir skipaðir samkvæmt tilnefningu Alþingis, sem hlýtur að teljast eðlilegt í það minnsta, en síðan er gert ráð fyrir tveimur samkvæmt tilnefningu Reykjavíkurborgar og einum án tilnefningar.

Nú er það svo, eins og hv. flutningsmaður rakti, að á ýmsu hefur gengið í skipulagsmálum á vettvangi borgarinnar. Ef maður orðar það bara svona almennt er ekki að sjá að hægt sé að bera mjög mikið traust til borgaryfirvalda í öllu tilliti þegar kemur að skipulagsmálum og ekki síst hér í miðborginni.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji nægilega tryggilegt að þessi nefnd sé þannig samansett að aðilar sem hafa reynst, getum við sagt, a.m.k. á köflum, eilítið mistækir í skipulagsefnum — (Forseti hringir.) ekki þarf annað en líta út um gluggann, eins og hv. þingmaður nefndi í flutningsræðu sinni, til að sjá það.