149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu.

147. mál
[17:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og sömuleiðis fyrir að hafa opnað á það að hann gæti séð fyrir sér aðra skipan mála en þarna er gert. Áhættan er augljós, svo að ég leyfi mér að segja það, ef litið er á atburði liðinna vikna og mánaða, eins og þeir snúa til að mynda að Víkurkirkjugarði, helgireit Reykvíkinga, hvernig daufheyrst hefur verið við ábendingum sérfræðinga, áhugafólks o.s.frv., kirkjunnar manna og þau sjónarmið virt vettergis af hálfu borgaryfirvalda, þetta er náttúrlega mikið áhyggjuefni.

Ég fagna því að frummælandi í þessu máli hafi með ræðu sinni hér og nú, í svari við spurningu minni, komið þeim skilaboðum vel og rækilega á framfæri, til að mynda við þingnefnd, að hann gæti séð fyrir sér aðra skipan mála varðandi umrædda yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á Alþingissvæðinu.