149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu.

147. mál
[17:03]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Eins og fyrsti flutningsmaður rakti í framsögu sinni þá hefur verið hér atburðarás sem er að öllu leyti dæmalaus í næsta nágrenni þinghússins. Og umgengnin um Víkurkirkjugarð, sögulegar minjar, ævafornan grafreit og annað af því tagi er, leyfi ég mér að segja, náttúrlega með endemum. Sömuleiðis hefur verið daufheyrst við áskorunum, ítarlegum umræðum, greinaskrifum. Þar hafa komið fram fornleifafræðingar, arkitektar, heiðursborgarar Reykjavíkur, sagnfræðiprófessorar og margt fleira fólk sem hefur flutt mál sitt af þekkingu, yfirvegun og skynsemi, en ekkert virðist duga til. Manni verður kannski hugsað til hugtaksins verktakalýðræði þegar svona stendur á.

Þess vegna er mikið fagnaðarefni að það skuli vera komið fram á Alþingi frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu. Ég vil nota þetta tækifæri til að greina frá því að ég hef haft til undirbúnings tillögu til þingsályktunar sem er ætlað að sporna við þeirri óheillaþróun sem hv. flutningsmaður rakti svo vel í sinni framsöguræðu og mætti reyndar margt segja um. Þingsályktunartillagan er um að grípa til raunhæfra aðgerða, fela fjármála- og efnahagsráðherra að beita sér fyrir því að ríkið eignist Landssímahúsið við Austurvöll með því að leita samninga um kaup á húsinu, en að öðrum kosti að hefja undirbúning þess að ríkið taki þann hluta byggingarlóðar sem tilheyrir Víkurkirkjugarði eignarnámi. Tillagan er á lokastigi undirbúnings og ég er þakklátur hv. flutningsmanni þess frumvarps sem við erum að ræða hér nú fyrir stuðning hans við það mál.

Samkvæmt 36. gr. stjórnarskrárinnar er Alþingi friðheilagt. Þar segir að enginn megi raska friði né frelsi Alþingis. Fyrirhugaðar framkvæmdir og starfsemi á Landssímareitnum við Austurvöll þar sem rísa eiga stórt og mikið hótel og veitingastaðir með tilheyrandi umferð ferðamanna og hópferðabifreiða, mega með réttu teljast fela í sér röskun á þingfriði í andstöðu við umrætt ákvæði. Þetta má ekki viðgangast og er nauðsynlegt að Alþingi sendi skýr skilaboð. Ég tel að það geri það með því frumvarpi sem hér liggur fyrir og með þeirri þingsályktunartillögu sem ég er að boða í þessari ræðu þannig að það séu alveg skýr skilaboð inn í íslenskt samfélag að á Alþingi sætta menn sig ekki við að gengið sé fram með þeim hætti sem raun ber vitni.

Ég ætla að leyfa mér að nota þetta tækifæri og vitna í prófessor emeritus Helga Þorláksson í grein sem hann ritaði þar sem hann rekur að upphaf kirkjugarðs Víkurkirkju megi rekja hátt í 1000 ár aftur í tímann og þar hafi verið jarðað fólk á seinni hluta 19. aldar. Í greininni segir enn fremur, með leyfi forseta:

„En legsteinar molna og minningar hverfa. Þegar svo stendur á er gamall og góður siður að sýna kirkjugörðum virðingu, setja upp minningarmark um hina framliðnu og leyfa lifendum að njóta þess friðar sem hinum framliðnu er veittur.“

Það er mikil saga af samskiptum ríkis og Alþingis og borgaryfirvalda. Allt verður þetta rakið í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu. Eins og ég gat um í upphafi þá er undirbúningur hennar á lokastigi. Ég ætla að leyfa mér að lýsa þeirri von að hún komi fram alveg á næstunni og það gefist tækifæri til að mæla fyrir henni svo hún fái þinglega meðferð.