149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu.

147. mál
[17:11]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og vil taka undir með honum að það er auðvitað eins konar mælikvarði á siðferðisstig þjóðar hvernig hún umgengst reiti eins og við erum að fjalla um, ævaforna kirkjugarða. Ég bind miklar vonir við að málin tvö, þ.e. frumvarpið sem hann hefur mælt fyrir í dag og sú þingsályktunartillaga sem ég vonast eftir að mæla fyrir áður en langt um líður, fái gott brautargengi á Alþingi og víðtækan stuðning meðal þingmanna. Ég el þá von í brjósti að tillöguflutningurinn sendi skýr skilaboð inn í samfélagið til borgaryfirvalda, þar á meðal um það að á Alþingi uni menn ekki þeirri framvindu sem hefur orðið, og að hann megi verða fallinn til þess að veitt verði öflug viðspyrna og þeirri óheillaþróun sem hefur orðið í nánasta umhverfi Alþingishússins verði stöðvuð og henni snúið við. Ég vona að þessi reitur, Víkurkirkjugarður, fái þá friðun og njóti þeirrar friðhelgi sem honum ber.