149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu.

147. mál
[17:13]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og vona sannarlega að þessi verði raunin og fagna tillögu hans aftur. En fleira mun þurfa að koma til, því að það verður að segjast alveg eins og er að það er hálfvandræðalegt fyrir Alþingi að á sama tíma og gerðar eru athugasemdir við framkvæmdir í grennd og við erum að reyna að vinda ofan af þeim, áformar þingið sjálft að ráðast í byggingu gríðarstórs svarts eða grás kassa undir skrifstofur Alþingis á næsta horni. Því mun ég, og hef reyndar þegar gert, leggja til að þau áform verði endurskoðuð. Sú bygging er hönnuð af prýðisgóðum arkitektum, en hún á ekki heima á þessum stað.

Mikilvægt er að þingið fari fram með góðu fordæmi hvað varðar þróun miðbæjarins, ég tala nú ekki um ef þingið fellst á það með mér og hv. þingmanni og fleirum, að það eigi að fá sérstakt vald yfir umhverfi sínu til þess þá væntanlega að gera það betra en það er og gæta að því að nánasta umhverfi þingsins sé til þess fallið að tryggja ekki bara öryggi og eðlilegar greiðar samgöngur, heldur líka það umhverfi og það andrúmsloft sem er Alþingi sæmandi. Hér er um að ræða nokkra hluti, en allt helst þetta í hendur.

Sú tillaga sem ég hef mælt fyrir í dag, þ.e. þetta frumvarp, er til þess fallið að gera hitt sem þarf að ráðast í, það sem hv. þingmaður hefur nefnt, og það atriði sem ég nefndi í þessu andsvari, auðveldara.