149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

stjórnarskipunarlög.

501. mál
[17:18]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Herra forseti. Á tíu ára afmæli búsáhaldabyltingarinnar leggjum við Píratar fram nýju stjórnarskrána sem inniheldur alla þá vinnu sem unnin var af þjóð og þingi áður en hún var sett niður í skúffu 2013. Með frumvarpinu er þó strax hægt að halda áfram þar sem frá var horfið.

Í búsáhaldabyltingunni fyrir nákvæmlega tíu árum kviknaði í hugum og hjörtum landsmanna von um að lýðræðið gæti virkað á ný. Mótmælendur kröfðust afsagnar ríkisstjórnarinnar, afsagnar seðlabankastjóra og afsagnar yfirstjórnar Fjármálaeftirlitsins — og nýrrar stjórnarskrár.

Fyrstu þremur markmiðunum var náð. Það var skipt um fólk, en var það nóg? Eitt meginmarkmið búsáhaldabyltingarinnar er enn óklárað, umbætur með nýrri stjórnarskrá. Þjóðin hefur komið að gerð nýju stjórnarskrárinnar frá upphafi. Þjóðin mætti á þjóðfund 2010 og lagði til breytingar á stjórnarskránni. Þjóðin mætti sama ár á kjörstað og kaus sína fulltrúa á stjórnlagaþing. Þjóðin mætti svo í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 og kaus að grundvalla nýju stjórnarskrána á frumvarpi stjórnlagaráðs. Í lýðræðisríkjum er það þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn og íslenska þjóðin hefur sjálf ákveðið að gefa sjálfri sér nýja stjórnarskrá. Síðan þá hefur ríkisstjórnum Jóhönnu Sigurðardóttur, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar ekki tekist eða þær ekki viljað klára nýju stjórnarskrána og fara að vilja þjóðarinnar.

Nú er boltinn hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem er að vinna þetta áfram. Framlag okkar Pírata er nýja stjórnarskráin í forgang. Við viljum þegar öllu er á botninn hvolft að vilji þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá, eins og hann birtist 2012 í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sé virtur. Við Píratar höfum ítrekað lagt það til á Alþingi og við höfum alltaf sett það sem fyrsta forgangsmál þegar við erum að semja við aðra flokka um stjórnarmyndun. Ástæðan er einföld, nýja stjórnarskráin stóreflir lýðræðið, rétt okkar allra til að taka meiri þátt, rétt þjóðarinnar til að taka þátt, réttinn til að hafa áhrif, réttinn til að draga stjórnmálamenn til ábyrgðar og hún stóreflir borgararéttindi okkar allra. Hún víkkar út borgararéttindi okkar allra.

Þetta er grunnstefna Pírata, þetta er ástæðan fyrir því að við erum til. Þetta er ástæðan fyrir því að á þessu tíu ára afmæli búsáhaldabyltingarinnar leggjum við fram þetta nýja frumvarp, nýju stjórnarskrána, sem, eins og ég segi, inniheldur alla vinnuna sem var unnin af þingi og þjóð áður en hún var sett niður í skúffu 2013.

Nýja stjórnarskráin er tilbúin fyrir þing og ríkisstjórn, fyrir þing sem er tilbúið að taka hana úr skúffunni, klára hana hér á Alþingi og senda hana til ykkar, landsmanna. Í I. kafla frumvarps að nýrri stjórnarskrá, sem við ræðum hér, er fjallað um þær grundvallarreglur sem íslensk stjórnskipan byggist á. Þar er kveðið á um stjórnarform, að Ísland sé lýðveldi með þingræðisstjórn. Svo er fjallað um uppsprettu ríkisvaldsins og handhafa þess og þrískiptingu ríkisvaldsins og þá enn fremur fjallað um yfirráðasvæði Íslands og loks rétt til íslensks ríkisborgararéttar.

Áherslan í mannréttindakaflanum í nýju stjórnarskránni sést m.a. á því að mannréttindakaflinn er færður úr VII. kafla í gildandi stjórnarskrá í II. kafla í frumvarpi stjórnlagaráðs. Mannréttindi okkar allra, réttindi okkar eru í forgrunni. Það er tilgangurinn með því að við setjum okkur stjórnarskrá og að við myndum saman samfélag. Hvernig við útfærum valddreifinguna kemur þar á eftir. Mannréttindin eru fyrst.

Mannréttindavernd er eitt mikilvægasta hlutverk stjórnarskrár. Þess vegna ákvað stjórnlagaráð á einum af sínum fyrstu fundum að endurskoðun mannréttindakafla stjórnarskrárinnar væri eitt af meginverkefnum ráðsins. Þessi ákvörðun byggðist m.a. á sterkri undiröldu á þjóðfundunum, bæði 2009 og 2010, þegar þjóðin kom saman og ræddi grunngildi samfélagsins og tillögur að því hvernig stjórnarskránni skyldi breytt. Ýmis mannréttindamál voru fundargestum einmitt hugleikin. Fram kemur í frumvarpi stjórnlagaráðs að margar af þeim áherslum sem liggja til grundvallar endurskoðun mannréttindakaflans hafi komið beint frá þjóðfundinum. Þetta geta allir athugað sem vilja ef þeir gúgla þjóðfund 2010 um stjórnarskrána. Þar er veftré þar sem hægt er að fara ofan í allar tillögurnar sem fundargestir, tæplega 1.000 landsmenn af handahófi, komu sér saman um og settu fram.

Mannréttindakaflinn í núgildandi stjórnarskrá var uppfærður 2009 á sama tíma og mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur hér á landi, enda var nauðsynlegt að uppfæra íslensk mannréttindaákvæði samhliða lögfestingu sáttmálans. Þetta fól í sér mikla réttarbót hvað varðar vernd mannréttinda á Íslandi en mannréttindakafli stjórnarskrárinnar hefur staðið óhreyfður síðan þrátt fyrir mikla og öra þróun sem hefur orðið í samfélaginu. Internetið og samfélagsmiðlar hafa gjörbreytt samfélagsgerðinni, því hvernig við eigum samskipti og hvaða réttindi við viljum að stjórnvöld tryggi okkur. Hrunið breytti síðan ásýnd okkar á samfélagið og fór þjóðin þá svolítið að skoða betur hvaða gildi hún vildi hafa í forgangi eins og við sáum á þjóðfundunum 2009 og 2010 og svo í aðfaraorðum nýju stjórnarskrárinnar. Við sáum á þjóðfundunum að lýðræði, valddreifing, heiðarleiki, þau gildi, voru fólki ofarlega í huga. Byltingar á borð við #metoo hafa svo sýnt okkur nauðsyn þess að stíga fleiri skref í átt að jafnrétti og að allir skuli verndaðir fyrir hvers kyns ofbeldi. Allt þetta sýnir okkur skýra nauðsyn þess að uppfæra mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Mannréttindum er gjarnan skipt í tvær kynslóðir. Fyrsta, elsta og mikilvægasta kynslóð mannréttinda er borgararéttindin og stjórnmálaréttindin. Það eru réttindi á borð við tjáningarfrelsi, trúfrelsi, kosningarrétt, frelsi undan pyndingum, þau réttindi sem leggja grunninn að nútímasamfélagi. Í kjarnann eru borgararéttindi þau réttindi sem tryggja að menn hafi sitt sjálfræði, þeir sjálfir geti valið hvernig þeir vilja verja sínu lífi án afskipta, án kúgunar. Svo eru stjórnmálaréttindin sem eru réttindi manna til að hafa aðkomu að því þar sem sameiginlegar ákvarðanir þarf að taka, að þeir hafi rétt á að koma að þeim ákvörðunum, annaðhvort í gegnum fulltrúa eins og nýja stjórnarskráin talar um eða hafi beinni aðkomu í þjóðaratkvæðagreiðslum, í því að leggja jafnvel fram með stuðningi 10% þjóðarinnar frumvörp á Alþingi, meiri aðkomu að ákvarðanatökunni sem er náttúrlega nauðsynlegt ef maður ætlar að geta verndað þau borgararéttindi sem eru fest í lög og eru takmörkuð í lögum ef þau stangast á við önnur.

Nýja stjórnarskráin felur í sér að öllum þeim réttindum sem er að finna í núgildandi stjórnarskrá er viðhaldið en þau eru uppfærð og efld og þeim er fjölgað þannig að við fáum víðtækari og sterkari borgararéttindi með nýju stjórnarskránni.

Borgaraleg stjórnmálaréttindi eru tryggð í 5.–21. gr. frumvarpsins fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða það sérstaklega. Stjórnmálaréttindin er svo að finna í köflunum um Alþingi og forseta Íslands og ríkisstjórnina og ég kem meira að þeim á eftir.

Þetta var fyrsta kynslóðin. Önnur kynslóð borgararéttinda er gjarnan kölluð efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Eðli þessara réttinda er annað en borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda þar sem þau kveða á um að tryggja skuli með lögum ákveðin réttindi til ákveðinna gæða. Með fyrstu kynslóðar réttindum er yfirleitt kveðið á um óskiptan rétt eða frelsi sem borgararnir hafa, rétt til að ákveða án þvingunar og afskipta hvernig þeir haga lífinu eins og ég nefndi og réttinn til að koma að sameiginlegum ákvörðunum sem hafa áhrif á líf þeirra, frelsi og réttindi.

Með þessum annarrar kynslóðar réttindum leggjast því ákveðnar skyldur á ríkið að tryggja tiltekin grunnréttindi fyrir borgarana. Nýja stjórnarskráin felur í sér umtalsverðar umbætur á ákvæðum varðandi annarrar kynslóðar réttindi. Með henni er t.d. betur tryggður rétturinn til atvinnu og mannsæmandi vinnuskilyrða, til heilbrigðisþjónustu og menntunar. Það kemur kannski mörgum í opna skjöldu eða á óvart að þessi atriði eru ekki í dag tryggð fyllilega í stjórnarskrá.

Þá er að finna ný ákvæði sem tryggja menningarlegt frelsi og akademískt frelsi, réttinn til heilsu og heilbrigðisþjónustu, réttindi barna, réttinn til lífsviðurværis, félagslegs öryggis og almannatrygginga. Þessi efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu réttindi eru tryggð í 22.–28. gr. frumvarpsins fyrir þá sem vilja skoða það nánar. Ég fer aðeins yfir hvað er sagt í þeim greinum sem eru ekki í gildandi stjórnarskrá. Þegar kemur að borgararéttindum sjálfum er eitt lykilatriðið þar upplýsinga- og þátttökuréttur, þ.e. þriðju kynslóðar upplýsingaréttur, sem er réttur okkar borgaranna til að fá frá stjórnvöldum án undandráttar allar upplýsingar sem stjórnvöld annaðhvort sjálf búa til eða standa straum af kostnaðinum við, kosta, borga fyrir, án undandráttar þótt nefnd hafi verið einhver undantekningartilfelli til að tryggja friðhelgi einkalífs fólks, til að tryggja rannsóknarhagsmuni og alls konar svoleiðis atriði.

En að öðru leyti höfum við rétt á að fá þetta allt saman. Í dag er það þannig að við þurfum alltaf að spyrja um þetta. Þriðju kynslóðar upplýsingarétturinn sem er tryggður í frumvarpi stjórnlagaráðs og því frumvarpi sem við leggjum hér fram grundvallast á því er að þetta liggur allt fyrir að frumkvæði ríkisins og á aðgengilegu formi þannig að við getum notað þessar upplýsingar til að upplýsa okkur um það hvernig valdhafar fara með það vald sem við felum þeim.

Varðandi menningarlegu réttindin — þar er ákvæði sem er ekki í núgildandi stjórnarskrá, þ.e. 24. gr. um frelsi til menningar og mennta. 25. gr. er um félagsleg réttindi, þ.e. um að öllum skuli tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis, eins og segir í frumvarpinu, réttur til almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, svo sem vegna atvinnuleysis, barneigna, elli, fátæktar o.s.frv. Heilsa, ómengað umhverfi og heilbrigðisþjónusta, menntun og svo réttur barna það sem er tekið úr barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur þó verið lögfestur á Íslandi. En þarna er þetta sett í stjórnarskrá og fest sem grunnlög landsins.

Svo er það IV. kafli frumvarpsins. Hann fjallar um Alþingi, verkefni og störf Alþingis og alþingismanna, kosningar til Alþingis og lýðræðislega þátttöku almennings. Þegar kemur að kosningunum er eitt mjög áhugavert. Þegar kjósandi gengur inn í kjörklefann í dag eru fyrir framan hann átta eða tíu konfektkassar og hann hefur réttinn á því að velja einn konfektkassa til að opna og borða molana í þeirri röð sem flokkurinn ákvað. Þarna eru kannski vondir molar eins og núggat og forræðishyggja eða eitthvað svona og kjósandinn vill ekkert borða þá mola en hann skal borða þá ef hann ákveður að velja þennan kassa. Í nýju stjórnarskránni gengur kjósandinn hins vegar inn í kjörklefa og þar blasa við átta eða tíu konfektkassar og hann má bara opna þá alla og svo má hann bara velja þá mola sem honum finnst bestir. Kannski er það piparmyntufyllt súkkulaði og meira frjálslyndi. Það er alla vega það sem ég myndi velja, en kjósendur geta valið úr öllum kössunum. Þeir mega áfram velja einn kassa og borða molana eins og flokksforystan ákvað að stilla þeim upp eða jafnvel flokkurinn allur en þeir mega líka opna alla kassana og velja þá mola sem þeir vilja.

Í þessum kafla frumvarpsins felast viðamestu umbæturnar á gildandi stjórnarskrá. Núgildandi stjórnarskrá byggist að miklu leyti á stjórnarskrá Íslands eins og við fengum hana frá Danmörku á sínum tíma, 1874. Henni var lítillega breytt þegar við fengum sjálfræði okkar og talað um að við vildum bara breyta henni rétt strax, þetta væri bara til bráðabirgða, við værum að fara að breyta henni. Sú heildarendurskoðun fór ekki fram, hún var geymd en takið eftir því að heildarendurskoðunin byrjaði síðan aftur 2010 þegar landsmenn komu saman á þjóðfundi, tæplega 1.000 Íslendingar valdir af handahófi, og ákváðu: Þetta eru gildin og þetta eru ákvæðin sem við viljum fá í nýja stjórnarskrá. Þjóðin kaus síðan á stjórnlagaþing sem útfærði það eftir tillögum sinna fulltrúa og þeir lögðu fram frumvarp sem þjóðin mætti í þjóðaratkvæðagreiðslu og greiddi atkvæði um að grundvalla nýja stjórnarskrá á þeim tillögum. Þjóðin er löngu byrjuð að vinna að nýrri heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Það er bara stjórnmálamönnunum sem hefur hingað til ekki tekist að hreyfa það áfram meira en það sem við sjáum í dag.

Í IV. kafla um Alþingi er hlutverk og stjórnskipuleg staða Alþingis gagnvart öðrum örmum ríkisvaldsins í forgrunni. Í dag er þetta tiltölulega óljóst. Þarna er allt saman skýrt og miklu betra. Svo er náttúrlega staða forseta Íslands í gildandi stjórnarskrá mjög óljós og hún er skýrð mjög verulega. Við stöndum iðulega frammi fyrir því að við erum ekki viss alveg um stjórnskipulega stöðu forsetans sem er bagalegt, sér í lagi þegar forsetinn, eins og það er skrifað í stjórnarskránni, hefur alls konar vald. Við skulum ekki horfa fram hjá því að hingað til hefur forsetinn bara verið að beita neitunarvaldi sínu, annars vegar málskotsréttinum sem er klárlega skrifaður í 26. gr. stjórnarskrárinnar og verður áfram í þessu frumvarpi, að hann geti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu ef þingið hefur samþykkt einhver lög. Þetta situr áfram. Þetta hefur hann.

Fyrst neitaði Ólafur Ragnar Grímsson að skrifa undir. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, á að hafa sagt við hann: Heyrðu, geturðu skrifað undir fyrir mig að ég megi rjúfa þing ef ég myndi leggja það fyrir þig? Ólafur Ragnar, segir sagan, á að hafi sagt: Nei, ég geri það ekki. Ertu búinn að tala við ríkisstjórnina? Þetta er alla vega sagan sem gengur þannig að Ólafur Ragnar virðist hafa gert þetta, að segja: Nei, ég ætla ekki að skrifa undir. Hann beitir neitunarvaldi sínu í krafti þess að það þarf undirskrift forsetans og enginn þvingar undirskrift forsetans á plagg. Það snýr enginn upp á höndina á honum.

Nú hefur Guðni Th. Jóhannesson sagt varðandi uppreist æru: Ef fyrir mig verða lögð fleiri skjöl um uppreist æru mun ég ekki skrifa undir þau. Hann er líka búinn að segja að hann ætli ekki að skrifa undir. Hann ætlar að beita neitunarvaldi með því að beita ekki undirskrift sinni.

Þetta er það sem er kallað neikvætt, þetta er ekkert frumkvæðisvald, þetta er neikvætt vald, þetta er neitunarvaldið. Aftur á móti sagði Ólafur Ragnar Grímsson sem forseti í kappræðum fyrir forsetakosningarnar 2012 að hann gæti lagt sjálfur fram frumvarp á Alþingi. Þetta er til á myndefni. Ef forseti myndi beita því ákvæði að leggja fram frumvarp, myndi beita frumkvæðisvaldi sínu, eru alls konar ákvæði sem hann getur farið að nýta. Hann getur sagt að menn þurfi ekki að fylgja lögum, já, það er ákvæði í stjórnarskránni sem heimilar það. Í raun er hann þá með það vald sem þjóðin myndi sætta sig við, að tiltölulega einvaldur einstaklingur myndi beita. Það þarf 3/4 hluta þingsins til að hafa frumkvæði að því að vísa forsetanum frá og svo þarf helmingur þjóðarinnar að samþykkja það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vinsæll, popúlískur forseti í núverandi stjórnskipulagi með mjög óvinsælt þing og óvinsæla ríkisstjórn gæti stigið ansi mörg brött skref í átt að gerræðislegu stjórnskipulagi sem flest okkar vilja ekki.

Nýja stjórnarskráin kveður með skýrum hætti á um skipulag og starfshætti Alþingis og forsetans. Varðandi Alþingi eru þrjú meginhlutverk þar, löggjafarstarfið, eftirlit með framkvæmdarvaldinu og fjárstjórnarvaldið og er því sérstaklega lýst í greinum frumvarpsins.

Reglum um meðferð þingmála er talsvert breytt, auk þess sem sérstakri grein um meðferð þingsályktunartillagna og annarra þingmála er bætt við. Eftirlitshlutverk þingsins er styrkt og staða stjórnarandstöðu og minni hlutans er efld. Valdi er dreift.

Skilyrði til greiðslu úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er þrengt talsvert og heimild til að veita ríkisábyrgð á einkaskuldum þarf að helgast af almannahagsmunum. Það var sett á fót nefnd sem heitir Lögrétta, kosin á Alþingi til að gefa þinginu og þingmönnum álit um stjórnskipulegt gildi lagafrumvarpa. Það er ekkert svoleiðis batterí formlega til í dag sem er skipað af þinginu þannig að þegar við stöndum frammi fyrir því hvort þetta frumvarp sé mögulega brot á stjórnarskrá þurfum við iðulega að styðjast við það sem kemur frá ráðuneytunum sem mér hefur ekki fundist rétt og hef verið að sækja mér meiri föng um þetta. Þarna fengjum við sérstaka nefnd sem myndi alltaf geta svarað okkur um það hvort þau frumvörp sem eru í meðförum þingsins væru mögulega brot á stjórnarskrá.

Það blasti við okkur í efnahagshruninu sem reið yfir 2008 að ýmsir þættir í stjórnskipan landsins virkuðu ekki eins og skyldi. Það var nauðsynlegt að gera umbætur. Það er ástæðan fyrir því að ég fór að skipta mér af stjórnmálum á Íslandi. Eftir hrunið var hópur sem hét Lýðveldisbyltingin á netinu að leika sér með hugmyndir að því hvernig væri hægt að breyta stjórnarskránni til þess að efla lýðræðið og auka ábyrgð og þátttökurétt almennings til að hafa meira frumkvæði og beint lýðræði. Í rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna sem og á þjóðfundunum 2009 og 2010 kom fram mikilvægi þess að breyta stjórnarskránni. Meðal niðurstaðna sem fram komu á þjóðfundinum 6. nóvember 2010 um stjórnarskrána var að tempra vald í stjórnskipan landsins og að skerpt yrði á aðgreiningu löggjafar- og framkvæmdarvalds, að styrkja þyrfti stöðu Alþingis og efla stjórnsýslu. Nýja stjórnarskráin eykur líka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Hún skýrir og skerpir á eftirlitshlutverki þingsins og leggur áherslu á að auka fagmennsku við undirbúning löggjafar. Til að ná fram þessari styrkingu löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu er í frumvarpinu að finna eftirfarandi breytingar:

Í fyrsta lagi að Alþingi kjósi forsætisráðherra í beinni opinni kosningu þannig að það sé skýrt enn betur að forsætisráðherra og ríkisstjórn hans sitji í skjóli meiri hluta þingsins. Það er ítrekað með samspili við skýrt ákvæði um vantraust þannig að það er þingið sem kýs forsætisráðherra. Forsætisráðherra velur sér sína ríkisstjórn og það er þingið sem leggur til hvort ríkisstjórnin sitji áfram, hvort forsætisráðherra sé skipt út og einhver annar komi í staðinn. Jafnframt getur forsætisráðherra ekki rofið þing. Það er vald sem forsætisráðherra hefur í dag og það er gríðarlega mikið vald að hann geti rofið þing og boðað til kosninga. Þetta er m.a. agavaldið sem hann hefur á þingið, að ef þetta virkar ekki og ef þingið stendur einhvern veginn í vegi fyrir forsætisráðherra segi hann: Heyrðu, þá boða ég bara til nýrra kosninga.

Í nýju stjórnarskránni segir þingið: Nei, þá skiptum við þér út, forsætisráðherra, og fáum nýjan forsætisráðherra sem getur betur stjórnað þessu landi.

Í öðru lagi er löggjafarhlutverk þingsins bætt. Alþingi verður eini handhafi löggjafarvaldsins, forsetinn kemur ekki lengur að því enda kemur hann ekki að framlagningu mála frá ríkisstjórninni. Hann heldur þó óskertum málskotsrétti sínum til að vísa lögum sem þingið samþykkir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Málskotsrétturinn er óskertur, hann er nákvæmlega eins.

Áskilið er að frumvörpum skuli fylgja mat á áhrifum. Möguleiki er opnaður á að frumvörp fari í tvær umræður frekar en þrjár. Þá getur fjórðungur þingmanna vísað frumvarpi í Lögréttu, þ.e. ef fjórðungur þingmanna er óviss með hvort frumvarpið brjóti lög geta þingmennirnir vísað málinu til Lögréttu.

Í þriðja lagi verður Alþingi aðeins rofið með ályktun þingsins sjálfs, sem ég nefndi áðan, en ekki samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra. Þetta er gríðarlega mikilvægt.

Í fjórða lagi er afnumin heimild forsætisráðherra til að gefa út bráðabirgðalög. Löggjafarvaldið er á Alþingi.

Í fimmta lagi sitja ráðherrar ekki lengur á þingi og verða þingmenn sem verða ráðherrar því að víkja þingsæti. Þetta eitt er stórt skref í átt að aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdarvalds og eykur sjálfstæði þingsins. Eins og þetta er eru einmitt ráðherrarnir, ég tala nú ekki um ráðherra sem eru líka formenn flokka, mikið hérna innan um og geta skipt sér töluvert mikið af störfum á þingi.

Að auki eru Alþingi fengin ýmis önnur verkfæri til eftirlits með framkvæmdarvaldinu. Meðal þeirra má nefna það sem kveðið er á um í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Þá eru ákvæði um umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun felld inn í stjórnarskrána. Þetta eru eftirlitsstofnanir Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Þá kveður frumvarpið á um ýmsar breytingar sem styrkja stöðu minni hlutans og munu því koma til með að auka samráð milli stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi. Forseti Alþingis verður kjörinn með 2/3 hluta atkvæða. Víkur hann frá almennum þingstörfum og hefur ekki atkvæðisrétt. Er það til þess fallið að efla traust alls þingsins til forsetans sem stýrir því. Þeir sem fylgjast eitthvað með á Alþingi hafa ítrekað fylgst með því hvað þingmenn minni hlutans geta verið óánægðir með forsetann sem hefur næstum því alræðisvald um dagskrá þingsins, hvaða mál komast á dagskrá, hvaða mál komast í atkvæðagreiðslu og hvernig hlutum háttar hérna varðandi framgang og meðferð mála á Alþingi. Hann getur þvingað mál úr nefnd ef því er að skipta. Hann er gríðarlega valdamikill og oft kvartar minni hlutinn undan því að honum finnst forsetinn ekki starfa í þágu alls Alþingis heldur í þágu stjórnarmeirihlutans, og réttilega. Það er rétt ábending. Er þetta til þess fallið að efla traust á þingforseta.

Það eru ýmis mál sem krefjast lengri meðferðar og samþykktar og þurfa að fá aukinn meiri hluta, þ.e. það þarf 2/3 hluta þingmanna til að samþykkja þau. Við vinnu stjórnlagaráðs voru það meginmarkmið að auka möguleika almennings á aðkomu að ákvarðanatöku, enda er réttur allra að koma að ákvarðanatöku sem þá varðar. Þetta er bara lýðræðisákvæðið eins og það birtist líka í grunnstefnu Pírata, nákvæmlega þetta ákvæði. Þetta er lýðræðisákvæði eins og það birtist á lýðræðisráðstefnu sem plagg var tekið saman um hjá Sameinuðu þjóðunum, aðalritari Sameinuðu þjóðanna gerði það, um lýðræðisfókusinn þar.

Helstu breytingar til að tryggja betur lýðræðislega aðkomu almennings er eftirfarandi: Málskotsréttur kjósenda, 76. gr., að 10% kjósenda geti knúið fram atkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög. Ef kjósendur hafna þeim falli þau úr gildi. Þetta er málskotsrétturinn, öryggisventillinn, sem er á Bessastöðum. Hann verður áfram þar. Þar getur forsetinn skrúfað fyrir ef Alþingi samþykkir lög og sent þetta til þjóðarinnar. Þjóðin ákveður þá hvort lögin halda gildi sínu.

Í nýju stjórnarskránni bætist við annar öryggisventill, að 10% þjóðarinnar geti sent í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þjóðin vilji skrúfa fyrir það mál og stöðva það þannig að við höfum tvo öryggisventla. Eins og hefur komið fram eru ákveðin skilyrði, alla vega sem Ólafur Ragnar Grímsson setti sem forseti. Þegar við vorum að reyna að hafa áhrif á lækkun veiðigjalda á sumarþinginu 2013 þegar Píratar komu fyrst á þing fórum við og töluðum við Ólaf Ragnar og svo gefur hann út yfirlýsingu eftir þetta. Af því að það voru ekki grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, það var bara verið að lækka veiðigjöldin í því, ætlaði hann ekki að setja lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin hefði kannski ákveðið með sínum öryggisventli að gera það þannig að þarna er réttur þjóðarinnar miklu ríkari til að stöðva mál ef henni finnst Alþingi ekki vera að sinna hlutverki sínu og hagsmunum.

Svo er tillöguréttur kjósenda, þ.e. 2% kjósenda geta lagt fram þingmál eða frumvarp á þingi. Þingið getur lagt fram gagntillögu og svo er hægt að setja þetta — nei, það er að vísu með frumvarpið, þarna er þetta tillaga. Ef frumvarpið kemur gæti þingið lagt fram gagntillögu en það er varðandi þjóðarfrumkvæði. Fyrst er öryggisventillinn, svo er tillaga sem er hægt að leggja fram þannig að hún fáist rædd og svo er það þriðja atriðið og það er algjör frumkvæðisréttur, 10% kjósenda að leggja fram frumvarp. Á þetta er kannski hægt að horfa sem annars konar öryggisventil. Fyrstu ventlarnir eru til að skrúfa fyrir mál en okkur vantar líka ventla til að skrúfa frá málum því að stundum eru stjórnvöld að vanrækja hluti. Maður hefur heyrt sagt í umræðunni: Já, aldraðir eru í slæmri stöðu. Maður sér að fólk á stofnunum kemst kannski ekki í bað í heila viku o.s.frv. Þegar maður fer að ræða við hagsmunasamtök eldri borgara er alveg ljóst að ef einhvers konar réttlát nálgun á þetta kæmi fram, sem ríkisstjórnin væri að vanrækja, gætu samtök í samfélaginu sem gæta hagsmuna sem við erum öll sammála um lagt slíkt til í þjóðaratkvæðagreiðslu, lagt til að það sem er verið að vanrækja skuli gert. Eitt annað dæmi er fjárframlög fyrirtækja til stjórnmálaflokka. Það er eitthvað sem landsmenn vilja klárlega skrúfa meira fyrir. Þetta er eitthvað sem er ekki gert. Það er vanrækt að gera þetta og bregðast við þeim vilja landsmanna. Landsmenn geta skrúfað frá málum, komið með dagskrá með 10% kjósenda á bak við sig.

Stjórnarskrárbreytingar verða síðan bornar undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að það þarf ekki alltaf þessar tvennar kosningar á milli sem hefur gert það nánast ógjörlegt að breyta stjórnarskránni sem er í raun stóra atriðið sem hefur valdið því að þjóðin hefur ekki fengið sínum vilja framgengt, það eru alltaf þessar tvennu kosningar á milli. Þetta er eitt af því sem er í vinnu nefndar Katrínar Jakobsdóttir sem er nú að vinna að breytingu á stjórnarskránni, eitt af þeim atriðum sem er verið að skoða þar og við Píratar settum sem skilyrði að það væri þar inni, þ.e. að breyta breytingarákvæðinu þannig að hægt sé að breyta stjórnarskránni hvenær sem er, hvenær sem þjóðin er tilbúin til að breyta stjórnarskránni, það þurfi ekki að vera þingkosningar á milli.

Svo er margt annað gott í þessu frumvarpi en ég sé að tími minn er að verða búinn en nefni örfá atriði í viðbót. Ég held að á þessum myndum sé ég bara búinn að nefna helstu atriðin. Ég tók saman myndir sem eru flæðirit á mismunandi stjórnskipan eins og hún er annars vegar núna á Íslandi og hins vegar eins og frumvarp stjórnlagaráðs myndi gera það. Ég skal bara birta á Facebook-síðunni minni ef það er ekki þar lengur þannig að fólk geti skoðað það.

Ég held að ég sé bara nokkuð sáttur með það sem fram hefur komið og bendi á að þetta frumvarp að nýrri stjórnarskrá inniheldur alla þá vinnu sem bæði þingið og þjóðin var búin að vinna þangað til það var sett niður í skúffu 2013. Með þessu frumvarpi er strax hægt að halda áfram þar sem frá var horfið. Nýja stjórnarskráin er tilbúin fyrir þing og ríkisstjórn sem er tilbúin til að taka það úr skúffunni, klára það á Alþingi og senda það til ykkar, þjóðarinnar.