149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

stjórnarskipunarlög.

501. mál
[17:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs. Nefnd um málið mun hefja störf í upphafi nýs þings og leggur ríkisstjórnin áherslu á að samstaða náist um feril vinnunnar.“

Nefnd skipuð formönnum flokka sem sæti eiga á Alþingi hefur nú fundað níu sinnum frá því ríkisstjórnin tók við völdum í byrjun desember 2017. Er sú vinna enn í gangi og er allt gott með það og breytir framlagning þessa frumvarps engu um þá vinnu. Verð ég að segja að ég gleðst innilega yfir því að við séum í dag að ræða þetta frumvarp og gleðst ég innilega yfir því að þetta frumvarp hafi verið lagt fram aftur á Alþingi því þetta vinnur nefnilega vel saman, þ.e. formannanefndin og svo hin þinglega meðferð þessa frumvarps.

Við getum nefnilega og eigum að hjálpast að. Stjórnarskrárgjafinn er þjóðin. Þjóðin skal kjósa um stjórnarskrá en löggjafinn, Alþingi Íslendinga, þarf að útbúa frumvarpið þannig að við förum eftir lögum. Það er okkar hér, þingmanna, að vinna þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga og klára málið. Hér gefst almenningi og félagasamtökum kostur á að skila inn umsögn um málið, mæta fyrir nefndir og halda áfram með umræðuna um þetta plagg sem við erum búin að kjósa um að eigi að vera grundvöllur nýrrar stjórnarskrár, nýs samfélagssáttmála.

Af því tilefni að við erum hér ætla ég í rauninni ekki að fara djúpt ofan í einstök ákvæði frumvarpsins vegna þess að í fyrsta lagi hef ég greitt atkvæði um frumvarp stjórnlagaráðs sem ég óskaði eftir að yrði lagt til grundvallar við vinnuna, en líka af því að við erum í 1. umr. um þetta mál. Mig langar kannski að fara meira inn í ferilinn og hvers vegna við eigum einmitt núna að vera að klára þetta, þó að vissulega megi segja að við eigum að vera löngu búin að því.

Mig langar þess vegna að fara aðeins yfir sögu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, stjórnarskrár sem okkur hefur verið kennt í sögubókum að Kristján IX. hafi afhent okkur, enda er stytta af afhendingunni beinlínis fyrir framan Stjórnarráðið okkar.

En það var ekkert Kristján IX. sem afhenti okkur plaggið enda ku hann hafa haft sáralítinn áhuga á okkur Íslendingum, okkar hugðarefnum eða sjálfstæðisbrölti okkar yfirleitt. Kristján þessi IX. afhenti Íslendingum aldrei stjórnarskrána þegar hann kom í heimsókn til Íslands árið 1874 heldur barst hún til Íslands löngu seinna, eða 1904, og var svo send aftur utan árið 1928. Styttan góða fyrir framan Stjórnarráðið verður því eiginlega teljast vera nokkuð snilldarleg sögufölsun. Það er kannski einmitt það sem einkennir allt þetta mál, þ.e. vinnuna við að semja samfélagssáttmála fyrir íslensku þjóðina, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það er nefnilega alls konar sögufölsun í gangi um allt þetta ferli, hvort sem um er að ræða ferlið frá 1874, 1944 eða 2010 þegar Alþingi samþykkti að fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni okkar. Það eru fjölmargar sögufalsanir í gangi eftir því hver talar.

Stjórnarskráin okkar, sem við höfum verið að notast við undanfarna áratugi, var ávallt talin vera bráðabirgðaplagg. Um það virðist ekki vera mikill ágreiningur. Frá 1874–1942 voru lögð fram 36 mál á þingi til breytinga á stjórnarskránni. Fjórum sinnum náðu breytingar fram að ganga, þar á meðal þegar stofna átti lýðveldið Ísland. Þingmannanefnd skyldi smíða tillögur til breytinga á stjórnarskránni en skýrt var tekið fram að óheimilt væri að gera nokkrar aðrar breytingar en þær sem beinlínis leiddu af sambandsslitunum við Danmörku og lýðveldisstofnun. Mikilvæg forsenda þeirrar samstöðu sem ríkti við afgreiðslu breytinganna 1944 var að þær skyldu bara ná til þessara afmörkuðu þátta stjórnskipunarinnar í sátt. Það varð að vera sátt.

Mig grunar að þeir sem hlusta á þessa ræðu kannist svolítið við þetta orð, sátt, þegar kemur að breytingum á stjórnarskránni. Í áliti á þeim tíma sagði að nefndin skyldi áfram undirbúa aðrar breytingar á stjórnarskránni. Felld voru út ákvæði um konung og innleidd ákvæði um forseta. Hlutverk forseta var að flestu leyti mjög sambærilegt við hlutverk konungs áður enda flókið að fara að breyta of miklu. Það var víst ekki alger sátt.

Að öðru leyti stóð stjórnarskráin óbreytt en frekari breytingar voru áætlaðar. 12 manna nefnd var skipuð til ráðgjafar eldri nefnd og enn var skipuð nefnd, tveimur árum síðar, enda hafði fyrri nefnd lognast út af. Það var eitthvað lítið um fundi. Á árunum 1944–2005 komu fram fjölmargar nefndir með tugum meðlima án nokkurs sýnilegs árangurs. Einstaka breytingar hafa vissulega verið gerðar, aðallega varðandi þingið sjálf, varðandi kjördæmaskipan þegar þingmönnum þótti það brýnt og afnám deildaskiptingar þegar þingmönnum þótti það brýnt.

Í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins var svo samþykkt breyting á mannréttindakaflanum og er því gjarnan flaggað að það hafi nú heldur betur verið farið í stórkostlegar breytingar á stjórnarskránni þannig að þetta stjórnarskrárbreytingabrölt sé nú óþarfi.

Þetta, þessar breytingar á þinginu og á mannréttindakaflanum, virðast stjórnmálaflokkar lýðveldisins hafa getað sammælst um. En þegar kemur að grundvallaratriðum í stjórnskipun og um sameiginlegar auðlindir okkar virðist samstaðan hverfa og sáttin sömuleiðis. Lítið fer fyrir henni og enn sitjum við uppi með þetta bráðabirgðaplagg danska konungsins, sem að mörgu leyti er ósköp úrelt.

Sú heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem fara átti fram eftir að lýðveldisstjórnarskráin var sett fór loksins af stað með skipun stjórnlagaráðs, 25 einstaklinga úr ýmsum áttum, og var þetta samþykkt hér á Alþingi 2010 með lögum um stjórnlagaþing. Í kjölfarið var kosin stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð. Kosning til stjórnlagaþings, sem sinna ætti þeirri vinnu, heildarendurskoðuninni sem Alþingi hafði samþykkt, var svo kærð og ógilti Hæstiréttur þá kosningu. Þetta er líka af andstæðingum breytinga talið vera merki um það að öll sú vinna sem stjórnlagaráð fór svo í við heildarendurskoðun sé á einhvern hátt ómarktæk.

Sömu aðilar telja þó ekki að allar þær nefndir sem hafa verið að störfum frá 1874 og hafa verið handvaldar hér af Alþingi séu á einhvern hátt umboðslausar. Það hefur bara aldrei hvarflað að nokkrum manni að Sigurður Líndal og allir þeir lögspekingar sem hafa verið hér áratugum saman hafi á einhvern hátt ekki mátt koma að þeirri vinnu. En andstæðingar breytinga þreytast ekki á að benda á að stjórnlagaráðið, þessi 25 manna ótrúlega fjölbreytti hópur sem vann linnulaust í fjóra mánuði að breytingum á stjórnarskránni, sé á einhvern hátt með minna umboð en hinar nefndirnar, þær nefndir sem áður hafa komið. Það er auðvitað algerlega fráleit sögufölsun. Alþingi Íslendinga kaus jú þennan hóp.

Á fjórum mánuðum var smíðuð ný stjórnarskrá. Nýja stjórnarskráin var svo borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012, hvar 73% kjósenda samþykktu að tillögur stjórnlagaráðs skyldu lagðar til grundvallar. Þetta er algjört lykilatriði, herra forseti. Þjóðarviljinn hefur í allan þennan tíma verið virtur að vettugi.

En bíðum við. Þegar rætt er um lítið traust á stjórnmálum tel ég fullvíst að þessi vanvirðing við þjóðarviljann spili þar einmitt stærstan þátt. Það er ekki í boði að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og fylgja ekki niðurstöðum. Ég lagði til á síðasta löggjafarþingi að við myndum klára málið með því að leggja fram þetta plagg sem við í Samfylkingunni vorum búin að útbúa og ætluðum að leggja fram þá, til þess að við gætum gefið þjóðinni nýja stjórnarskrá í fullveldisgjöf. Það hefði að mínu mati verið meiri bragur á því en að segjast vera að gefa þjóðinni hafrannsóknaskip sem þjóðin sjálf borgar fyrir með skattpeningum sínum og draga svo til baka fé til Hafrannsóknastofnunar þegar kemur að eftirlitinu sem hafrannsóknaskipið á að sinna. Mér hefði þótt meiri bragur á því að við færðum einmitt þjóðinni stjórnarskrána sem þjóðin kaus um og bað um að yrði lögð til grundvallar við heildarendurskoðunina. En stjórnarflokkarnir féllust ekki á þessa tillögu af því að það er ekki samstaða um málið. Það vantar fullkomna sátt.

Það er nefnilega þetta með þessa sátt sem ég átta mig ekki alveg á vegna þess að þegar afgreiða á önnur frumvörp hér á Alþingi þá dugir að það sé meiri hluti fyrir þeim.

Ég held, herra forseti, að við hér á Alþingi skuldum þjóðinni það skilyrðislaust að við klárum þessa vinnu. Þetta þarf ekki að taka neinn óhemju tíma. Það er langt í frá að þessi vinna þurfi að taka tvö kjörtímabil.

Við í Samfylkingunni munum að sjálfsögðu halda áfram að starfa með nefnd forsætisráðherra sem er að vinna að ýmsum breytingum og kalla til sín sérfræðinga. En ég mun ekki liggja á mínu liði í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar kemur að vinnu við þetta frumvarp. Ég held að ef þjóðin hafi gott af að fá eitthvað á þessum tímapunkti, á 10 ára afmæli búsáhaldabyltingarinnar, sé það að eignast sinn samfélagssáttmála.

Mig langar í lokin að henda þeim afgangi af ræðunni sem ég hafði skrifað, nota hann bara seinna, og lesa eingöngu aðfaraorðin að nýrri stjórnarskrá sem hljóma svona:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“