149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

stjórnarskipunarlög.

501. mál
[18:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi þetta vera túlkunina eða þýðinguna á greininni, þ.e. einræðistúlkunin. Hún verður, eins og hv. þingmaður benti á, enn þá áhugaverðari ef hún er sett í samhengi við 13. gr., að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt. Það er ekki nóg með að ef túlkunin á núverandi stjórnarskrá er svona, eins og margir höfðu viljað halda fram áður en málskotsréttinum var beitt eða neitað að undirrita þar sem forseti átti að vera valdlaus út af 13. gr., ef hún á við 30. gr. þá getur forsætisráðherra farið með allt það vald sem var talið upp í 30. gr.

Ég held að þetta moð með það hvert vald forseta er í raun og veru, hvað af því er í höndum ráðherra án þess að forseti geti gripið til þess hvenær sem er, sé ein af lykilástæðunum fyrir því að við þurfum að uppfæra alla vega þann kafla og að mínu mati alla stjórnarskrána, af því að hún er gegnsýrð af því vandamáli, þessu konungsvandamáli. Hversu táknrænt sem það er þá stendur þetta samt þarna. Við höfum séð að forseti tekur sér það vald sem er skrifað í núverandi stjórnarskrá og það er enginn sem getur mótmælt því. Við erum ekki með Lögréttu t.d. og svoleiðis sem segir að það sé stjórnarskrárbrot sem forseti gerir. Ef forseti neitaði t.d. að slíta þingi þegar forsætisráðherra kæmi með yfirlýsingu um það á þingi, væri það þá brot á stjórnarskránni eða bara forseti að nota vald sitt? (Forseti hringir.) Ég veit það ekki. Það veit enginn.