149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

stjórnarskipunarlög.

501. mál
[18:20]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Þessi grein sem hv. þingmenn Helga Vala Helgadóttir og Björn Leví Gunnarsson voru að ræða er kannski, ég leyfi mér að segja, óvenju ískyggilegt dæmi um lagagrein sem er bæði óljós og torskilin og mjög teygjanleg og túlkanleg. Hún varðar hins vegar grundvallarvald þeirra sem fara með völdin hér á landi og getur í höndum einhverra snúist þannig að jafnvel sé hætta á einhvers konar gerræði.

Þessi grein held ég að sé kannski ágætt dæmi um þann vanda sem við stöndum frammi fyrir, sem er ekki síst sá að ýmis ákvæði gildandi stjórnarskrár eru óljós og torræð og túlkanleg og hafa þá jafnframt leitt til þess að lögmenn hafa getað túlkað lög af hugvitssemi og fimi, sem stundum hefur jafnvel leitt til þess að erfitt hefur verið að koma lögum yfir menn.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð hér í þessum stól. Hv. þingmenn, Jón Þór Ólafsson, Helga Vala Helgadóttir og Björn Leví Gunnarsson hafa öll farið vel yfir málið, bæði innihald þessarar nýju stjórnarskrár og sögu málsins, svo rakti Björn Leví ágætlega hér áðan samanburð á núgildandi stjórnarskrá og tillögum stjórnlagaþings og hrakti þar ágætlega þá hugmynd sem stundum heyrist að hér sé um að ræða mjög róttækt plagg, nokkurs konar byltingarplagg sem setji allt þjóðlífið í uppnám ef samþykkt verður.

Eins og stjórnarskráin horfir við mér þá er hún aldrei útrætt mál. Stjórnarskrá er aldrei útrætt mál. Hún er ekki háð náttúrulögmálum, hún er ekki partur af þeim, hún er ekki eins og veðrið eða fjöllin eða hafið, hún er mannanna verk. Hún er ekki ytri aðstæður sem við höfum ekkert um að segja heldur er hún ytri aðstæður okkar lífs, vissulega. Hún grundvallar ytri aðstæður okkar lífs en við sjálf þurfum að móta þessar ytri aðstæður og við gerum það saman. Við gerum það með því að gera sáttmála hvert við annað um ákveðnar grundvallarreglur í samskiptum okkar, grundvallarleikreglur í samfélaginu, grundvallarlög, enda heitir stjórnarskrá — þetta er eitt af þeim fáu tilvikum þar sem nágrannalöndin eiga betra orð en við um eitthvað fyrirbæri, þau tala um grunnlög, grundvallarlög. Og stjórnarskráin er grundvöllurinn undir öllu og ef, eins og Eysteinn munkur segir í Lilju, að undirstaðan sé réttleg fundin, þá er það farsælt og að sama skapi er það ófarsælt ef grundvöllurinn er ekki góður. Hún er sem sagt lifandi plagg. Þetta er, eins og margir hafa bent á, samfélagssáttmáli.

Eftir hrun gafst hér einstakt tækifæri til að taka þennan samfélagssáttmála upp svo að segja, vinna saman að því að mynda nýjan samfélagssáttmála. Sú vinna fór fram á þjóðfundum sem ég held að hafi ríkt almenn sátt um í samfélaginu öllu að hafi gefist vel og hafi skilað mjög góðu starfi og hafi lagt mjög góðan grunn að næstu stigum sem var stjórnlagaþing, sem kosið var í kosningu sem var ekki bundin kjördæmum, þar sem hver maður hafði sitt atkvæði og hver maður, hver Íslendingur, gat boðið sig fram enda má segja að hálf þjóðin hafi boðið sig fram til þessa starfs. Slíkur var áhuginn.

Afraksturinn var sá þrátt fyrir að framkvæmdin væri umdeild og Hæstiréttur kvæði upp þann dóm að hann ógilti þessa kosningu — en þá er rétt að halda því strax til haga að Alþingi kaus þá til starfans sem fengu kosningu í þessum kosningum þannig að þeir höfðu, eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir dró fram áðan, fullt umboð til starfa — að þetta stjórnlagaþing sat í rauninni þverskurður þjóðarinnar og að mörgu leyti betri þverskurður þjóðarinnar en við erum hér, með fullri virðingu fyrir okkur hv. þingmönnum. Þetta var fólk af öllum stigum og stéttum samfélagsins, fólk úr öllum hornum landsins og fólk með mjög ólíkan bakgrunn og mjög ólíka sýn á hvaðeina. Engu að síður tókst þessu fólki að ræða sig niður og tókst með góðu starfi að vinna sig niður á að skila þessu sameiginlega plaggi svo að til fyrirmyndar var. Síðan tók þingið við vinnunni og hér í þinginu var unnin mjög góð vinna með það plagg sem var svo tilbúið og þjóðin fékk að kjósa um árið 2012. Þetta ferli allt vakti athygli víða um lönd og hefur verið talið til fyrirmyndar víða um lönd og raunar ýmsir sem standa í þeirri meiningu að við höfum klárað þetta. Það fór ekki svo.

Hver er nauðsyn á því að breyta stjórnarskránni? Það spyrja margir að því. Og hvers vegna þurfum við að vera að breyta þessu? Er þetta ekki bara ágætt eins og það er? Er ekki bara óvissa sem fylgir þessu? Þá held ég að því sé til að svara að óvissan fylgir núverandi stjórnarskrá. Manni finnst stundum þegar maður horfir á íslenskt samfélag í gegnum áratugina eins og íslenskt samfélag hafi á köflum verið spunnið af fingrum fram jafnharðan. Íslensk stjórnskipan hafi iðulega verið bara impróvíseruð frá degi til dags af helstu valdamönnum. Og öllum þeim breytingum sem hafa verið gerðar á núgildandi stjórnarskrá má eiginlega líkja meira við skipulegt undanhald þessara afla. Þetta hafa fyrst og fremst verið breytingar á kjördæmaskipan þegar það hefur einfaldlega ekki verið forsvaranlegt að hafa kjördæmaskipan lengur eins og hún var hverju sinni. Þessu hefur fylgt óvissa. Þessi nýja stjórnarskrá er viðleitni til að koma á meiri formfestu, meiri lögfestu, í íslensku samfélagi.

Samfylkingin hefur tekið af heilindum þátt í því nefndarstarfi sem hæstv. forsætisráðherra hefur staðið fyrir þar sem allir flokkar eiga fulltrúa og formenn allra flokka sem sæti eiga á Alþingi sitja í. Samfylkingin hefur alltaf verið til í að ræða endurskoðun á stjórnarskránni enda hafði Samfylkingin á sinni tíð undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur frumkvæði að því að hefja þetta ferli.

Þá er rétt að árétta það að grundvöllur vinnunnar í þeirri nefnd er heildarendurskoðun eins og kemur fram í minnisblaði sem formenn skrifuðu undir. Í þessari nefnd mun fulltrúi okkar að sjálfsögðu tala fyrir okkar sýn á þetta mál, sem er sú að það beri að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu frá árinu 2012.

Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í það sem Guðni Th. Jóhannesson, sem þá var sagnfræðingur en nú er forseti Íslands, skrifaði um þetta þar sem mér finnst hann lýsa þessu ákaflega vel og taka vel utan um þetta og ég vil gera orð hans að mínum. Guðni segir, með leyfi forseta:

„Í skrifum um lýðveldisstjórnarskrána er stundum gert of lítið úr þeirri grundvallarstaðreynd að henni var aldrei ætlað að standa lengi í óbreyttri mynd. Málamiðlanir til bráðabirgða verða þannig að fyrirmyndarlausnum til framtíðar. Vera má að pólitísk viðhorf ráði einhverju um þetta. Sagan af aðdraganda lýðveldisstjórnarskrárinnar sýnir hins vegar svo ekki verður um villst að til urðu málamiðlanir sem áttu að vera tímabundnar. Þetta gildir ekki síst um ákvæði um skiptingu valds milli ráðamanna sem segja eitt en þýða annað í raun. Stjórnarskrár eiga að vera skýrar en þannig er bráðabirgðasmíðin frá 1944 ekki, enda hefur hún engum orðið fyrirmynd og engin áhrif haft annars staðar í heiminum. Í aðdraganda lýðveldisstofnunar vildu ráðamenn á Alþingi réttilega stefna að einingu þjóðarinnar. Þeir vissu að samstaðan næðist ekki ef stjórnmálaflokkarnir tækjust á um nýja stjórnarskrá. Því var ákveðið að lögfesta lítt breytta stjórnarskrá til bráðabirgða en endurskoða hana svo við fyrsta tækifæri. Lýðveldið sem Íslendingar stofnuðu skyldi vara um aldur og ævi en stjórnarskráin ekki, enda mátti enn þá sjá að hún hafði að miklum hluta verið samin í danska kansellíinu eins og Jón forseti komst að orði á sínum tíma. Því má segja — með stjórnarskrána í huga — að 17. júní 1944 hafi Íslendingar tjaldað til einnar nætur á Þingvöllum, í gömlu dönsku tjaldi.“