149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

stjórnarskipunarlög.

501. mál
[18:35]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Vigdís Finnbogadóttir hélt ræðu á lýðræðisráðstefnu sem var haldin í Berkeley-háskóla í Kaliforníu þar sem hún talaði um nýju stjórnarskrána. Tilefni ráðstefnunnar var að fara yfir ferlið, það lýðræðislega ferli sem við höfum farið í.

Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann hafi heyrt þessa ræðu. Ég ætla að lesa lítinn bút úr henni og spyr hvort hann viti eitthvað um það hvernig Ólafur Ragnar Grímsson og aðrir forsetar hafa tjáð sig um stjórnarskrárferlið. Þetta sagði Vigdís, í þýðingu Illuga Jökulssonar:

„Árið 2008 steig Alþingi verulega merkilegt skref sem átti að verða til þess að draumurinn um nýja stjórnarskrá rættist loksins. Þá hófst víðfeðmasta og lýðræðislegasta starf að stjórnarskrárritun sem sagan kann frá að greina, og hefur vitaskuld vakið athygli um víða veröld. Stjórnlagaráð var kjörið með lýðræðislegum hætti svo þar fengju raddir ólíkra afla í íslensku samfélagi hvert sína rödd, og hin nýja stjórnarskrá var síðan samþykkt einum rómi. Þar að auki sýndi þjóðaratkvæðagreiðsla síðan fram á að íslenskir kjósendur vildu að hin nýja stjórnarskrá yrði tekin upp. En það hefur þó ekki verið gert enn. Að mínum dómi hefur íslenska þjóðin beðið nógu lengi.“