149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

stjórnarskipunarlög.

501. mál
[18:37]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni spurningarnar. Ef ég skil rétt var sú fyrri sú hvort ég hefði heyrt um þessa ræðu Vigdísar eða haft veður af henni. Svarið er: Já, það hef ég. Ég get jafnvel bætt við að mér finnst mjög athyglisvert að tveir forsetar Íslands skuli hafa tjáð sig með svo afdráttarlausum hætti um þetta mál.

Seinni spurningin held ég að hafi verið sú hvort mér sé kunnugt um afstöðu Ólafs Ragnars Grímssonar til þessarar nýju stjórnarskrár. Þá er því til að svara að mér er það ekki. Mig rámar í — ég bjó mig ekki undir þetta mál með því að leita í ræðum og greinum Ólafs Ragnars Grímssonar, ég verð að játa það — en mig rámar þó í að hafa einhvern tímann heyrt einhver ummæli höfð eftir honum sem hnigu mjög í aðra átt, skulum við segja, en ummæli þessa ástsæla forseta okkar, Vigdísar Finnbogadóttur, og svo Guðna Th. Jóhannessonar.

Að öðru leyti treysti ég mér ekki til að gerast hér einhver sérstakur túlkandi eða talsmaður fyrir Ólaf Ragnar Grímsson.