149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

málefni aldraðra.

306. mál
[19:18]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju minni hér með framlagt frumvarp sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson var að kynna, frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra. Hann fór yfir að ákvæði sem er í þessum lögum hefur verið nýtt ár eftir ár en það var sett til bráðabirgða. Þetta ákvæði hefur verið nýtt með þeim hætti að fé úr sjóðnum hefur verið látið standa straum af rekstrarkostnaði en eins og hv. þm. Ólafur Ísleifsson fór yfir er markmið laganna að vinna að uppbyggingu bygginga þjónustumiðstöðva og dvalarrýma fyrir aldrað fólk á Íslandi. Það er tími til kominn að frumvarp eins og þetta, sem hér er lagt fram, verði samþykkt.

Það leiðir hugann líka að því að það þarf að tryggja þessum mikilvægu stofnunum, sem okkar ágæta eldra fólk dvelur í og kemur í dagdvöl til, rekstrarfé. Þá fer maður einmitt líka að hugsa um hvað það skiptir máli að vel sé hugsað um þennan hóp fólks. Maður leiðir hugann að því að þessi aldurshópur, 65 ára og eldri — ég er reyndar kannski komin í annað sem ég ætla að segja ykkur á eftir — en það þarf að vinna að því með öllum ráðum að eldri borgarar fái hollt og gott fæði, hvort sem þessi hópur býr heima hjá sér eða á hjúkrunarheimilum. Það þarf að huga að hreyfingu fyrir þennan hóp og að sjálfsögðu annarri líðan. Við vitum það og flutningsmaður fór yfir það hér áðan að Íslendingar eru að eldast og heilsa okkar er líka að batna þannig að við lifum lengur. Það er svo sannarlega kominn tími til þess að gerð sé áætlun um hvernig á að passa upp á þennan hóp þannig að hann plumi sig og líði vel á efri árum.

Ég hef t.d. heyrt, sem ég veit ekki hvort er satt, að matur sem eldri borgurum er boðið upp á sé ekki eins og best verður á kosið. Er satt er þá hryggir það mig en ég veit hins vegar að hjá embætti landlæknis átti að eiga sér stað ákveðin endurskoðun á efni sem er leiðbeinandi fyrir mötuneyti og mat fyrir eldri borgara. Það skiptir mjög miklu máli að slík gögn séu nýtt og farið eftir þeim.

Með líðan og hreyfingu vitum við öll að það skiptir máli að um þá þætti sé vel hugsað. Mig langar í tengslum við þessa umræðu, af því að ég er komin á þetta skrið, að segja ykkur frá mjög merkilegum íslenskum rannsóknum sem hv. þingmenn hafa kannski heyrt um, en það eru rannsóknir Janusar Guðlaugssonar og reyndar vinna hans í nokkrum sveitarfélögum á Íslandi sem er stórmerkileg. Í samstarfi mjög margra sveitarfélaga sem hugsa lengra hefur verið ákveðið að innleiða ákveðið inngrip sem felst í sex mánaða þol- og styrktarþjálfun sem 65 ára og eldri geta sótt. Um er að ræða fræðslu um næringu og heilsutengda þætti. Einnig er um að ræða ýmiss konar mælingar á heilsu þessa aldurshóps. Við vitum að ef fólk er með efnaskiptavillu ber það með sér aukna hættu á hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki 2. Mælingarnar sem Janus og samstarfsmenn hans hafa unnið að er að mæla efnaskiptavillu sem talin er tengjast kviðfitu, vaxandi mittismáli, háum þríglýseríðum í blóði, lágu HDL-kólesteróli, sem er góða kólesterólið, mælingar á háum blóðþrýstingi, hækkuðu blóðsykursmagni o.fl.

Niðurstöðurnar eru auðvitað alveg frábærar, að þrátt fyrir aldurinn batnaði næring og heilsa þessa fólks, vöðvamassinn jókst, fitumassi lækkaði og hreyfi- og afkastageta batnaði. Það er auðvitað stórkostlegt að heyra að þessi góðu inngrip hafa fengið þvílíkt góða niðurstöðu fyrir þetta fólk. Það væri auðvitað óskandi og maður vonar að þegar heilbrigðisráðherra leggur fram frumvarp sitt um heilbrigðisstefnu verði slíkt inngrip þar til staðar. Mér finnst þessi umræða tengjast því að þetta frumvarp er mjög til bóta og sérstaklega varðandi byggingu húsnæðis. En síðan má ekki gleyma því að það þarf að hugsa um þá sem búa í húsnæðinu.