149. löggjafarþing — 56. fundur,  23. jan. 2019.

málefni aldraðra.

306. mál
[19:24]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka framsögumanni fyrir að leggja fram þetta frumvarp sem ég er meðflutningsmaður á með honum ásamt níu öðrum hv. þingmönnum. Einnig vil ég þakka fyrir að fá tækifæri til að ræða þetta brýna mál sem snýst um hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Þetta frumvarp fjallar um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og fjallar í stuttu máli um að fella brott ákvæði til bráðabirgða nr. VII í lögunum og svo er gildistökuákvæði í 2. gr. frumvarpsins.

Framkvæmdasjóður aldraðra starfar á grundvelli laga um málefni aldraðra. Sjóðurinn er fjármagnaður með sérstöku gjaldi sem lagt er á alla þá sem skattskyldir eru á aldrinum 16–70 ára samkvæmt lögum um tekjuskatt og 10. gr. laga um málefni aldraðra, svokallað gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Sjóðnum er ætlað að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land og skal fé úr honum varið til byggingar stofnana fyrir aldraða, þjónustumiðstöðva og dagdvalar, mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar á slíku húsnæði, til viðhalds húsnæðis dagdvalar og dvalar- og hjúkrunarheimila, auk annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu. Nánar er ákveðið um hlutverk sjóðsins í reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra, nr. 468/2014. Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra annast stjórn sjóðsins. Nefndin gerir árlega tillögu til ráðherra um úthlutun úr sjóðnum og skal umsóknum raðað í forgangsröð í samræmi við þörf á hverjum stað.

Herra forseti. Hér hef ég farið yfir hlutverk, tekjur og framkvæmd þessa sjóðs sem er Framkvæmdasjóður aldraðra. Það er nefnilega alveg skýrt hvert hlutverk hans er og hvert hlutverk hans átti að vera. Hann hefur skýrar tekjur sem hver skattþegn í landinu greiðir sérstaklega. Sú skipan mála er auðvitað gerð til þess að skattgreiðendur sjái og viti hvert þessir skattpeningar þeirra renna, nefnilega til framkvæmda, til byggingar hjúkrunarrýma fyrir aldraða. En hver er svo raunin? Raunin er sú að um áralangt skeið hefur þetta bráðabirgðaákvæði verið framlengt á hverju ári frá því að það var sett 2010 og síðan þá hefur hvelftin af tekjum sjóðsins verið notuð í eitthvað allt annað. Þetta er mergurinn málsins, herra forseti. Allan þennan tíma hefur hinn skýri tilgangur og hið tæra hlutverk sjóðsins samkvæmt lögum verið lagt til hliðar og féð notað í allt annað en upphaflegt markmið var, nefnilega í rekstur hjúkrunarrýma. Á okkar ylhýra tungumáli er besta orðið yfir þetta blekking. Skattgreiðendur eru blekktir með því að skjóta bráðabirgðaákvæði inn í lögin og heimila að stór hluti þessa fjármagns sé settur í allt aðra hluti en upphaflega markmiðið var með þessu gjaldi og nafnið á sjóðnum gefur til kynna, Framkvæmdasjóður aldraðra.

Herra forseti. Gjaldendur hafa væntanlega í upphafi þegar lögin voru sett kyngt þessu nýja gjaldi í þeirri fullvissu að aurinn færi í þetta góða og brýna málefni, nefnilega að byggja hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Þannig hefur rúmur helmingur af fé sjóðsins runnið til rekstrar á undanförnum árum og til samans er þetta fjármagn vel á 11 milljarð framreiknað. Því var það eftirtektarvert í fyrravor þegar ráðherra kynnti til sögunnar stórátak í uppbyggingu hjúkrunarheimila, stórátak eins og það var kallað, og gerir ráð fyrir að til verkefnisins verði settir 9 milljarðar á næstu fjórum árum. Sú upphæð dugir ekki einu sinni til að upphefja það fé sem hefur verið veitt úr framkvæmdasjóðnum frá hruni í rekstur. Svona framkoma er stjórnvöldum ekki til sóma og á að afleggja hið bráðasta. Þar dugir ekki, herra forseti, að koma með nýtt loforð um að nú eigi að veita sérstakt fjármagn í þessu sama skyni. Það að nú megi vænta stórátaks í byggingu hjúkrunarheimila er aumt yfirklór því að vitaskuld á fyrst að snúa sér að því að láta Framkvæmdasjóð aldraðra sinna sínu rétta og upphaflega hlutverki.

Herra forseti. Það frumvarp sem við ræðum nú snýr einmitt að því að afnema bráðabirgðaákvæði sem heimilar stjórnvöldum að veita fé úr sjóðnum í allt annað en hlutverk hans upphaflega var. Fyrir utan þetta er auðvitað mjög mikilvægt að gengið verði í það sem bráðast að fjölga verulega hjúkrunarrýmum fyrir aldraða og dvalarrýmum fyrir þann hóp. Það er ekkert nýtt, það hefur verið fyrirséð mjög lengi, að öldruðum er að fjölga og mun fyrirsjáanlega fjölga. Þeim fjölgar núna að meðaltali um rúm 1.700 á ári og einhverjir þeirra þurfa á slíkri vist að halda eins og í boði er á hjúkrunarrýmum og dvalarheimilum. Ekki síst þarf að fjölga þessum rýmum með skjótum hætti vegna þess að fjöldi aldraðra liggur nú inni á sjúkrastofnunum þrátt fyrir að eiga fremur heima á hjúkrunarheimilum eða annars konar dvalarheimilum. Þetta er hið versta mál, ekki bara fyrir hinn aldraða að vera ranglega vistaður og ekki á réttri stofnun heldur einnig fyrir sjúkrahúsin, tekur frá rými. Ekki má gleyma því að það er ekki heldur gott fyrir líðan hins aldraða þegar hann er vistaður á rangri stofnun og allt annarri stofnun en hann á heima á.

Við þurfum að gera miklu betur við eldri borgara þessa lands. Þau komu okkur þangað sem við erum núna stödd, þjóðfélagi dagsins í dag, og þau eiga það inni hjá okkur. Af þessum brýnu ástæðum vona ég innilega að þetta frumvarp fái málefnalega og skjóta meðferð í þinginu.