149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

lánskjör hjá LÍN.

[10:33]
Horfa

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nýverið sáu landssamtök íslenskra stúdenta sig knúin til að hleypa af stokkunum herferð til að berjast fyrir bættum kjörum stúdenta. Yfirskrift herferðirnar er Stúdentar mega ekki hafa það betra. Er það mat þeirra að háskólanemar búi við krappari kjör en flestir aðrir samfélagshópar. Í upphafsgrein núverandi laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna er því slegið föstu að hlutverk sjóðsins sé að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til þess að stunda nám án tillits til efnahags. Þetta göfuga markmið hefur verið tilgangur sjóðsins frá stofnun hans, enda stofnaður af verkalýðshreyfingunni og öðrum erindrekum jafnaðarstefnunnar til að tryggja börnum verkafólks og annarra efnaminni fjölskyldna rétt til að afla sér háskólamenntunar og auka þannig möguleika þeirra til félagslegs hreyfanleika.

Á undanförnum árum hefur þetta meginhlutverk og tilgangur sjóðsins átt undir högg að sækja. Til að mynda hafa hreyfingar háskólanema gagnrýnt harðlega framfærsluviðmið sjóðsins, frítekjumark hans og fyrirkomulag á útborgun lána, svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur jafnframt heyrst sívaxandi krafa stúdenta um að sjóðurinn taki breytingum í átt að norrænu styrkjakerfi þar sem hluti láns fellur niður við námslok eins og er við lýði í nágrannalöndum.

Síðasta frumvarp til nýrra heildarlaga um LÍN er birtingarmynd þróunar frá þessu meginmarkmiði sjóðsins. Þar var lagt til að öllum yrði tryggður mánaðarlegur styrkur frá sjóðnum, líka þeim sem enga aðstoð þurfa frá hinu opinbera. Kostnaðinum við þetta var velt yfir í hærri vaxtaprósentu lánanna. Innleiðingu styrkjakerfis að norrænni fyrirmynd var ætlað að styrkja stöðu þeirra sem á mestum stuðningi þurfa að halda en þarna var búið að snúa hugmyndinni á haus.

Þar sem nú stendur yfir endurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra nokkurra spurninga þessu tengt:

1. Full framfærsla einhleyps háskólanema í eigin húsnæði miðast við tæplega 193.000 kr. Stendur til að hækka framfærsluviðmið sjóðsins og miða það við lágmarkslaun?

2. Mun frítekjumark lánþega hjá LÍN hækka þannig að sumarvinna nemenda lækki ekki launin þeirra?

3. Mun lánasjóðurinn greiða út (Forseti hringir.) 100% af reiknaðri framfærsluþörf nemenda eftir endurskoðun? Mun fyrirkomulag og útborgun lána breytast þannig að þeir verði ekki komnir upp á yfirdrátt hjá bönkunum?

Að lokum: Stendur til að færa fyrirkomulag lána allra námsmanna nær norrænu styrkjakerfi þar sem hluti láns fellur niður að námi loknu?