149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

sala fullnustuíbúða Íbúðalánasjóðs.

[10:40]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er ánægjulegt að við skulum í fyrsta skipti á þessum tíma geta átt orðasamskipti um þetta mál. Ég ætla að reyna að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður beinir til mín.

Í fyrsta lagi er það eðlileg stjórnsýsla að dregist hafi að svara. Ég vil hvetja hv. þingmann og þingheim allan til að lesa það svar sem ég birti í gær og þau samskipti sem við höfum átt við Persónuvernd vegna þess að það er mikilvægt að persónuverndarlögin séu virt. Það er ekki hægt að velja og hafna og þess vegna leitaði ráðuneytið til Persónuverndar sem hefur nú gefið það svar að heimilt sé að afhenda þinginu upplýsingarnar en þingið verði hins vegar sjálft að bregðast við því hvort þær verði birtar opinberlega.

Er eðlilegt að leynd ríki um sölu ríkiseigna? Nei, það er ekki eðlilegt að leynd ríki um sölu slíkra eigna. Þess vegna hefur ráðherra beint þeim tilmælum til Íbúðalánasjóðs að þær upplýsingar séu almennt gerðar opinberar og að Íbúðalánasjóður leiti álits Persónuverndar. Það kemur líka fram í svarinu sem dreift var í gær að Íbúðalánasjóður verði þá að leita álits Persónuverndar á því hvort heimilt sé að birta upplýsingarnar. Mér er kunnugt um að Íbúðalánasjóður sé búinn að óska eftir þeirri heimild frá Persónuvernd.

Varðandi þriðju spurninguna, um það hvort ráðherra sé að beita Persónuvernd í pólitískum tilgangi, vísa ég því til föðurhúsanna. Það er þannig að við erum með persónuverndarlög og við verðum að virða þau og mikilvægt að það sé gert. Það eina sem lá fyrir af hálfu ráðherra í málinu var að fá upplýsingar og staðfestingu á því hjá Persónuvernd að heimilt væri að birta upplýsingarnar. Það er ekkert annað sem býr þar að baki og allur útúrsnúningur af hálfu þingmannsins til að reyna að draga eitthvað annað fram í því efni dæmir sig algerlega sjálfur.