149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

skerðing bóta TR vegna búsetu erlendis.

[10:50]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan verður Tryggingastofnun að fara yfir þau mál og öll framkvæmd er á hendi Tryggingastofnunar. Það er ekkert launungarmál að félagsmálaráðuneytið hefur verið í mjög góðu sambandi við Tryggingastofnun um útfærslu. Unnið er að breytingum hvað þetta snertir. Tryggingastofnun sjálf hefur bent á að fyrir lok þessa mánaðar muni liggja fyrir tímalína í því efni.

Ég vil benda á í því samhengi, bæði varðandi breytta framkvæmd og leiðréttingar, að í fyrsta lagi er mikilvægt að fara vel yfir málið til þess að hafa það algerlega rétt núna hvernig brugðist verður við. Í öðru lagi er mikilvægt að fram fari samtal milli félagsmálaráðuneytisins við fjárveitingavaldið og fjármálaráðuneytið um það hvernig brugðist skuli við þessu, bæði til framtíðar og hvað varðar þá þætti sem á að leiðrétta afturvirkt.

Ég náði ekki að svara seinni spurningunni en ég þykist vita að ég eigi eftir að fá eina fyrirspurn enn um málið í óundirbúnum fyrirspurnum og mun svara henni þá.